Stjórn Félags atvinnurekenda fagnar umræðu um kynferðislega og kynbundna áreitni, ofbeldi og mismunun í atvinnulífinu sem nú fer víða fram og hvetur félagsmenn til að tryggja að slíkt líðist ekki í þeirra fyrirtækjum.

Stjórn Félags atvinnurekenda samþykkti eftirfarandi ályktun í dag:

„Stjórn Félags atvinnurekenda fagnar þeirri umræðu sem farið hefur fram um kynferðislega og kynbundna áreitni, ofbeldi og mismunun í atvinnulífinu undir merkjum #metoo. Stjórnin hvetur félagsmenn FA eindregið til að tryggja að slíkt framferði líðist ekki í fyrirtækjum þeirra. Til þess þarf meðal annars skýra og aðgengilega starfsmannastefnu.

Miðla þarf upplýsingum um hvert starfsmenn geti snúið sér verði þeir fyrir ofbeldi, áreitni eða einelti og skýra ferla þarf til að taka á slíkri framkomu og ákveða viðurlög gagnvart gerendum. Stjórn FA hvetur eigendur og stjórnendur fyrirtækja í félaginu jafnframt til að ganga á undan með góðu fordæmi.“

Á vef FA er nánari umfjöllun um skyldur vinnuveitenda í þessum efnum og hjálpargögn sem þeim eru aðgengileg til að útbúa áætlanir og áhættumat um öryggi og heilbrigði á vinnustað þar sem koma skal fram til hvaða aðgerða skuli gripið í því skyni að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni og ofbeldi. Einnig ber að tiltaka í áætluninni til hvaða aðgerða verði gripið, komi fram kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um slíka háttsemi.