Félag atvinnurekenda hefur ritað ýmsum stærri sveitarfélögum, þar sem aðildarfyrirtæki þess starfa, bréf og hvatt til þess að álagningarprósenta fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði verði lækkuð í fjárhagsáætlunum fyrir komandi ár. Þetta kemur fram á heimasíðu Félags atvinnurekenda. Félagið bendir á að hækkun fasteignagjalda sé einn þeirra þátta sem valda nú verðbólguþrýstingi. Sveitarfélögin beri ekki síður en ríkisvaldið ábyrgð á því að farsæl niðurstaða náist í kjarasamningum í vetur og að fyrirtæki neyðist ekki til að velta kostnaðarhækkunum út í verðlagið.

Dæmi um helmingshækkun á fjórum árum

Í bréfunum til sveitarfélaga suðvestanlands er farið yfir að á árunum 2014-2019 hækkar fasteignamat atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu um 65,2%. Lítið eða meðalstórt fyrirtæki í Reykjavík, sem á árinu 2014 átti eign sem metin var til fasteignamats á 100 milljónir króna, greiddi það ár af henni 1,65 milljónir í fasteignagjöld en mun á næsta ári greiða 2,68 milljónir samkvæmt þessum meðaltalsútreikningum. Mörg dæmi eru um miklu meiri hækkanir fasteignamats og þar með skattbyrði. Fasteignamat eignar félagsmanns í FA hækkaði þannig um 98% á milli áranna 2014 og 2017.

„Oft og iðulega er ekkert að gerast í rekstri fyrirtækja sem auðveldar þeim að standa undir þessari stórauknu skattbyrði. Fasteignaskattur er raunar, að mati FA, afar óheppilegur og ósanngjarn skattur sem leggst á eigið fé fyrirtækja óháð afkomu,“ segir í bréfi FA til Reykjavíkurborgar.

Hækkanir Reykjavíkurborgar ólögmætar

Þar er jafnframt á það bent að Reykjavíkurborg lækkaði í fyrra álagningarprósentu fasteignagjalda íbúðarhúsnæðis til að mæta hækkunum fasteignamats. „Einhverra hluta vegna hefur engin ástæða þótt til að sýna eigendum atvinnuhúsnæðis sömu sanngirni. Reykjavíkurborg heldur fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði í lögbundnu hámarki. Tekjur borgarinnar af fasteignasköttum fyrirtækja hækkuðu úr 7,6 milljörðum króna árið 2013 í 10,6 milljarða á árinu 2017, eða um 39,3%,“ segir í bréfinu til borgarinnar.

Þessar gífurlegu hækkanir eru að mati Félags atvinnurekenda ekki aðeins ósanngjarnar, heldur jafnframt ólöglegt – þar sem fasteignagjöld eiga að standa undir kostnaði við veitta þjónustu sveitarfélagsins við fyrirtæki en ekki að vera eignarskattar – og í ofanálag óábyrgar og geta haft alvarlegar afleiðingar við núverandi aðstæður í hagkerfinu.