Héraðsdómur Reykjaness veitti í dag United Silicon greiðslustöðvun í þrjá mánuði eða þar til 4. desember, til þess að stjórnendur geti reynt að koma rekstri kísilmálmverksmiðjunnar á réttan kjöl. Þetta staðfestir Helgi Jóhannesson hæstaréttarlögmaður, sem er aðstoðarmaður skuldarans á greiðslustöðvunartíma, í samtali við mbl.is .

Fyrir helgi samþykktu kröfuhafar United Silicon að óskað yrði eftir á greiðslustöðvun félagsins svo hægt væri að finna lausn á vanda þess. Helstu kröfuhafar eru meðal annars Arion bani, Íslenskir aðalverktakar, Landsvirkjun, Reykjanesbær og ítalska fyrirtækið Tenova sem seldi United Silicon ljósbogaofninn. Arion banki hefur meðal annars lánað félagið 8 milljarða króna og eiga Íslenskir aðalverktakar inni einn milljarð króna samkvæmt uppkveðnum gerðardómi. Einnig skuldar fyrirtækið Reykjanesbæ 162 milljónir króna.

„Það er mat stjórnar félagsins að með greiðslustöðvun megi skapa ráðrúm til að grípa til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar eru til að koma rekstri verksmiðjunnar í eðlilegt horf. Markaðshorfur fyrir afurðir verksmiðjunnar eru góðar og verð hefur farið hækkandi. Framtíðarhorfur eru því vænlegar að því tilskyldu að unnt verði að afla aukins fjármagns, semja við lánardrottna og endurskipuleggja reksturinn. Nauðsynlegt var að fá heimild til greiðslustöðvunar til að freista þess að rétta við rekstur félagsins og ná samningum og samstarfi við lánardrottna með það að markmiði að ná bindandi nauðasamningum,“ kom fram í tilkynningu frá fyrirtækinu .