Félag atvinnurekenda lagði til við Alþingi að álagning Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins verði lækkuð um tvö prósentustig, til að vinna á móti verðhækkunum á áfengi sem leiða að óbreyttu af áformuðum breytingum á skattlagningu áfengra drykkja.

Tillagan er lögð fram til að vinna á móti verðlagsáhrifum af breyttri skattlagningu á áfengi, sem á að taka gildi um áramót samkvæmt frumvarpi um forsendur fjárlaga. Virðisaukaskattur á áfengi verður þá lækkaður í 11%, en á móti verður áfengisgjaldið hækkað um því sem næst 20%.

Þetta leiðir af sér að ýmsar ódýrari áfengistegundir hækka í verði, meðan dýrari tegundir lækka. Í raun þýðir breytingin að neytendur með minna á milli handanna, sem líklegir eru til að velja ódýrari tegundir, niðurgreiða áfengisskattana fyrir þá sem meira hafa og beina kaupum sínum í dýrara áfengi.

ÁTVR tekur til sín 300-400 milljónum meira

Útreikningar FA bendi til þess að smásöluálagning ÁTVR muni hækka á bilinu 300-400 milljónir króna við breytinguna, þar eð lögbundin prósenta leggist ofan á hækkað áfengisgjald.

„Að mati FA er ótækt að breyting, sem átti ekki að breyta tekjum ríkisins af áfengissölu, leiði til þess að 300-400 milljónir renni úr vösum neytenda inn í rekstur ÁTVR,“ segir í bréfi Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra FA.  Gerð er sú tillaga að álagning ÁTVR á bjór og léttvín verði 16% í stað 18% nú, en 10% á sterka drykki í stað 12% nú.

Samkvæmt útreikningum félagsins þýddi þetta að álagning ÁTVR yrði í krónum talið sú sama og verið hefur, miðað við sölutölur ársins 2014, og geta fyrirtækisins til að standa undir arðgreiðslum í ríkissjóð því óbreytt.