Námslán LÍN eru á betri kjörum en gengur og gerist. Auk þess er sá hluti lánanna afskrifaður sem stendur eftir við andlát greiðanda. Líta má á hvoru tveggja sem styrk til lántaka.

Samkvæmt upplýsingum frá LÍN er stuðningur ríkisins við námsmenn metinn um 37% af heildarlánasafni sjóðsins. Rúmlega helming af þessum stuðningi má rekja til niðurgreiðslu vaxta af lánunum og tæpan helming til þess að lán greiðast ekki að fullu. Undanfarin ár hefur stuðningurinn hins vegar verið meiri, eða um 47 prósent af útlánum hvers árs.

20 manns skulduðu 663 milljónir

Þetta fyrirkomulag á styrkveitingum hins opinbera til námsmanna veldur því að styrkurinn er sífellt meiri eftir því sem námsmenn taka hærri námslán. Í ársskýrslu LÍN árið 2014 kemur fram að þeir 20 einstaklingar sem skulda LÍN mest og hafa hafið greiðslur skulduðu sjóðnum samtals 662,9 milljónir króna. Núvirði lána þeirra var hins vegar aðeins 79,5 milljónir, eða 12% af nafnvirðinu.

LÍN býst þannig við því að þurfa að afskrifa að meðaltali 29 milljónir króna á hvern þessara 20 lántaka, vegna þess að þeir munu ekki ná að greiða lán sín til baka. Hæsta skuldin meðal þessara lántaka var 47,2 milljónir króna.

Þeir sem taka hæst lán fá mestan styrk

Þau 20% sem skulduðu LÍN mest árið 2014 skulduðu um 102 milljarða króna, eða tæplega helming af útlánum sjóðsins. Núvirði þessara lána var hins vegar aðeins 43 milljarðar, sem þýðir að eftirgjöf ríkisins á þessum lánum er áætluð um 58 prósent. Hjá þeim 20 prósentum lántaka sem skulda minnst er eftirgjöfin aðeins 10 prósent.

Þannig er styrkveitingu hins opinbera með óbeinum hætti forgangsraðað til þeirra sem taka há námslán, en það eru einkum einstaklingar sem lokið hafa meistara- eða doktorsnámi.

Ítarlega er fjallað um Lánasjóð íslenskra námsmanna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .