Þar sem laun aðstoðarmanna ráðherra fylgja launum skrifstofustjóra í ráðuneytunum, munu þeir sem nýir ráðherrar eru þessa dagana að ráða til sín vera með um 1,1 milljónir króna á mánuði í laun.

Laun skrifstofustjóra eru ákvörðuð af kjararáði, en heildarlaun langflestra skrifstofustjóra voru því 1.067.140 kr. samkvæmt nýjasta úrskurði ráðsins .

Mega ráða allt að fimm aðstoðarmenn

Ráðherrar ráða alla jafna til sín tvo aðstoðarmenn, en lög um Stjórnarráð Íslands segir að ríkisstjórnin getur ákveðið að heimila ráðningu þriggja aðstoðarmanna til viðbótar ef þörf krefur.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur bæði Guðlaugur Þór Þórðarson nýr utanríkisráðherra og Þorsteinn Víglundsson tilkynnt um ráðningu aðstoðarmanna.

Guðlaugur Þór réð til sín Borgar Þór Einarsson , sem starfaði áður hjá CATO lögmönnum þar sem hann er meðeigandi og Þorsteinn réð til sín þau Karl Pétur Jónsson ráðgjafa og varabæjarfulltrúa og Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur deildarforseta lagadeildar Háskólans á Bifröst.