Þetta hófst með því að ég var í doktorsnámi í Kaupmannahöfn sem ungur vísindamaður,“ segir dr. Þorbjörg Jensdóttir framkvæmdastjóri um tildrög þess að hún stofnaði fyrirtækið IceMedico.

Það má með sanni segja að fyrirtækið sé hugvitsdrifið því það framleiðir vöru sem er einstök í heiminum og er einkaleyfisvernduð í fjórum heimsálfum. Um er að ræða ferskan brjóstsykur sem er seldur undir nafninu HAp+ og er sykurlaus, með kalki og veldur ekki glerungseyðingu á tönnum líkt og annað súrt sælgæti.

Þróað í samstarfi við sælgætisframleiðendur

Varan varð til í kjölfar rannsókna Þorbjargar sem rannsakaði m.a. virkni munnvatnskirtla í krabbameinssjúklingum fyrir og eftir geislameðferð á höfuð og hálssvæði.  „Varan sem slík var upphaflega þróuð sem lausn við vandamáli. Vandamálið var munnþurrkur og lausnin var munnvatnsörvandi miðill sem var matvara en ekki lyf. Rannsóknirnar fóru fram í munnlyflækningum í Tannlæknadeild við Kaupmannahafnarháskóla. Það sem gerist í stuttu máli er að varan kemur á markað 2012 á Íslandi og í stað þess að einungis teygja sig til einstaklinga sem áttu við munnþurrksvandarmál að stríða að þá ruddi hún sér til rúms sem lífsstílsvara,“ segir Þorbjörg.

Í Kaupmannahöfn vann Þorbjörg hluta námsins í samstarfi við sælgætisframleiðanda þar sem hún fékk þjálfun í vöruþróun. „Í náminu var ég  í samstarfi við iðnaðinn og vann svokallað tvöfalt doktorspróf og var í samstarfi við sælgætisfyrirtækið Toms þarlendis sem framleiðir meðal annars Gajol og Anton Berg vörurnar. Þar hafði ég aðgengi að vöruþróunarsérfræðingum og framleiðsluaðstöðu og öðru slíku,“ segir Þorbjörg en samstarfið milli háskóla og iðnaðar myndaði öflugt umhverfi.

„Þetta spilaði allt saman, framleiðslan, vöruþróunin, rannsóknarstofan og klíník með þátttöku sjúklinga. Þetta samspil varð til þess að ég náði að þróa HAp+, sem er súr og örvar munnvatnið okkar tuttugufalt á við óörvað munnvatn. Þetta er eina súra matvaran sem við þekkjum á heimsvísu sem hefur ekki glerungseyð- andi áhrif. HAp+ hugvitið byggist á hlutfalli sýru og kalks, en hér hlutleysir kalkið neikvæða virkni sýru á glerung,“ bætir hún við.

Þorbjörg segir jafnframt að þetta sé sennilega eina sælgætið sem tannlæknar mæli með fyrir skjólstæðinga sína. En það eru ekki einungis fullorðnir sem nota HAp+ heldur börn og aðrir sem vilja og mega fá sér mola án þess að eiga á hættu á að skemma tennurnar.