Héraðsdómur Reykjavíkur féllst ekki á málflutning þriggja útgerðarfélaga sem höfðu krafist þess að fá viðurkenndan rétt sinn til endurgreiðslu á sérstöku veiðigjaldi vegna rækjuafla fiskveiðiársins 2012 til 2013.

Fyrirtækin þrjú eru Sólberg ehf. á Ísafirði, sem gerði út skipið Ísborg, Flóki ehf. á Húsavík sem gerði út skipið Heru, og Birnir ehf. í Bolungarvík sem gerði út skipin Arnarborg, Valbjörn og Ísbjörn.

Ein helstu rök útgerðanna fyrir því að endurgreiða ætti veiðigjaldið voru þau að tilgangur hins sérstaka veiðigjalds hafi samkvæmt lögum greinilega verið sá að tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapi. Framlegð rækjuveiða fiskveiðiárið 2012/2013 hafi hins vegar verið neikvæð um 18 krónur á hvert kíló. Með álagningu sérstaka veiðigjaldsins hafi framlegðin orðið neikvæð um 48 krónur á hvert kíló.

Sérstaka veiðigjaldið sé ólögmæt gjaldtaka, ómálefnaleg, óhæfileg og andstæð ákvæðum stjórnarskrárinnar um jafnræði, eignarrétt og atvinnufrelsi.

Ríkið sagði á móti gjaldtökuheimildir ótvíræðar samkvæmt gildandi lögum og vísaði meðal annars til dóms Hæstaréttar frá 2017 í máli Vinnslustöðvarinnar gegn íslenska ríkinu þar sem niðurstaðan varð meðal annars sú að ríkið hafi víðtækt vald og mikið svigrúm til að ákveða skattskyldu, ekki síst þegar skattlagning er hugsuð sem endurgjald fyrir aðgang að náttúruauðlindum.

Niðurstaða Héraðsdóms var sú að sýkna ríkið af öllum kröfum stefnenda. Auk þess þurfa stefnendur að greiða 1.200 þúsund krónur í málskostnað.

Að sögn Jóns Jónssonar, lögmanns útgerðarfélaganna, hefur enn ekki verið tekin ákvörðun um hvort málinu verði áfrýjað til Landsréttar.

Fiskveiðiárið 2012-13 var framlegð rækjuveiða neikvæð um 18 krónur.

Fréttin birtist í Fiskifréttum 14. júní