Wall Street Journal birti fréttaskýringu á föstudaginn sl. um hvernig Facebook safnar gögnum um einstaklinga frá félögum annarra smáforrita þótt þeir hafi aldrei skráð sig á Facebook.

„Milljónir notenda snjallsíma deila upplýsingum um sín innstu leyndarmál, eins og hvenær þeir vilja fara í ræktina eða hvað húsið sem þeir skoðuðu á dögunum kostar. Sum smáforrit safna upplýsingum um líkamsþyngd, blóðþrýsting, tíðarhring og þungun notenda sinna,“ segir í inngangi fréttaskýrignar WSJ. Eigendur smáforritanna selja svo þessar upplýsingar til Facebook án vitundar notendanna.

Það sem valdið hefur athygli er sú staðreynd að Facebook safnar þannig upplýsingum um fólk sem hefur aldrei skráð sig á samfélagsmiðilinn. Þessi staðreynd hefur valdið mikilli óánægju og reiði sér í lagi meðal fólks sem hafði sniðgengið Facebook í mótmælaskyni við söfnun félagsins á upplýsingum um einkahagi notenda sinna, en kemst svo að því að upplýsingar um það rata engu að síður í gagnabanka Facebook.

Fljótlega eftir að fréttin birtist steig fylkisstjóri New York fram og tilkynnti að hann hefði sett á fót rannsókn á hvernig „Facebook komist leynilega yfir persónuupplýsingar fólks“.