Samfélagsmiðillinn Facebook er byrjað að tengja fréttir sem notendur deila við wikipedia síður um miðlana og höfunda greinanna sem um ræðir til þess að ýta undir að þeir leggi sjálfstætt mat á trúverðugleika fréttanna.

Tilraunin er hafin meðal sumra notenda í Bandaríkjunum en þar í landi hefur verið mikil umræða um samfélagsmiðilinn eftir að upp komst um misnotkun fyrirtækisins Cambridge Analytica á notendaupplýsingum.

Hallaði á hægrisinnaða umfjöllun

Komu þær fréttir ofan á hneykslismál frá árinu 2016 þegar verktakar fyrir Facebook viðurkenndu að hafa sýnt hlutdrægni þannig að hallaði á fréttir sem höfðuðu til hægrisinnaðra skoðana sem komu upp sem vinsælar fréttir á síðunni.

Eftir að hafa gert tilraun með að merkja fréttir sem væru umdeildar uppgötvaði samfélagsmiðillinn Facebook að sumir notendur litu á það sem gæðamerki og deildu frekar þannig fréttum áfram.

Hafði Facebook hafið samstarf við aðila sem sannreyndu fréttir sem lið í baráttu samfélagsmiðilsins gegn því sem kallað hefur verið falskar fréttir, en tilraunin snerist upp í andhverfu sína þegar notendur sýndu vantraust sitt á samfélagsmiðlinum.

Nær til allra í Bandaríkjunum í október

Nýja tilraunin mun ná til allra notenda í Bandaríkjunum í október og er ætlunin að þegar notendur sjái fréttir sem er deilt sjái þeir jafnframt tengla inn á wikipedia síður um viðkomandi höfunda og fréttasíðurnar sem fréttirnar birtast á.

Auk þess verði upplýsingar um hve oft viðkomandi frétt hafi verið deilt og hvar sem og að hægt verði að smella á hnapp sem gefi frekari upplýsingar um greina. Jafnframt geti notendur séð hvort vinir hafi deilt fréttinni og ágrip af öðrum fréttum frá viðkomandi fréttaveitu.

Er ætlunin að nýta algrím og reiknireglur til að tryggja aðgang að upplýsingunum í stað mannlegra ákvarðana líkt og olli hneykslinu árið 2016 og verður því hægt að nýta tæknina víðar en í Bandaríkjunum að því er techcrunc.com greinir frá. Er ætlunin með nýju aðferðinni sögð vera að tryggja hlutleysi og að ekki sé hægt að saka Facebook um að vera hliðholla ákveðnum stjórnmálaskoðunum.

Eldri fréttir af Facebook:

Skoðanapistlar af Facebook: