Hreiðar Hermannsson, faður fótboltakappans Hermanns Hreiðarssonar, hefur stofnað félagið Stracta Hótels ehf. Tilgangur félagsins er bygging íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, leiga íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, rekstur gistiheimilis og þess háttar, fasteignamiðlun og rekstur fasteigna. Hermann er í varastjórn félagsins, að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag.

Hreiðar hefur í nafni byggingafyrirtækisins Stracta unnið að viðamikilli uppbyggingu heilsárshótela víða á Suðurlandi, s.s. austur í Mýrdal, Biskupstungum, við Hvolsvöll, Stokkseyri, Hveragerði og víðar. Hótelin verða byggð á kanadískum húsaeiningum sem notaðar voru sem vinnubúðir hjá Fjarðaráli í Reyðarfirði og Hreiðar keypti fyrir nokkru. Gert er ráð fyrir því að nokkur hótel opni fyrir næsta sumari.

Áformað er að hvert hótel verði um 3.000 til 3.500 fermetrar að stærð.