Jack Bogle, stofnandi eignarstýringafyrirtækisins Vanguard og fyrsta vísitölusjóðsins, er látinn 89 ára að aldri.

Bogle fæddist árið 1929, við upphaf kreppunnar miklu í New Jersey í Bandaríkjunum. Aðferðafræði Bogle hefur haft gífurleg áhrif í fjármálaheiminum. Bogle benti á að meðaltali nái fjárfestar meðal ávöxtun. Því væri hagvæmara að stofna vísitölusjóði sem kaupi í öllum skráðum félögum en spari á móti með lægri umsýslukostnaði við fjárfestingarnar.  Því náist til lengri tíma hærri ávöxtun af óvirkri stýringu en virkri stýringu.

Árangur Bogle er gríðarlegur en Vanguard er eitt stærsta eignarstýringarfyrirtæki heims með fimm þúsund milljarða dollara í stýringu. Fjárfestirinn Warren Buffett sagði ef reisa ætti styttu af þeim sem gert hefði mest fyrir bandaríska fjáresta væri það án nokkrus vafa Jack Bogle. Bogle hefði hjálpað milljónum fjárfesta að ná mun betri ávöxtun á sparnað sinn en þeir hefðu getað án hugmynda hans.