Næst stærsta flugfélag Þýskalands, Airberlin, sem flogið hefur til Íslands síðustu 12 sumur hefur ákveðið að fella niður áætlað flug sitt milli München og Keflavíkurflugvallar í maí og frá lokum september og út október.

Félagið hafði stefnt að þrem ferðum í viku til Íslands frá borginni frá því snemma í vor fram á haust, en með þessari ákvörðun fækkar ferðum félagsins hingað til lands um 26. Hver vél félagsins rúmar 179 farþega að því er segir í frétt Túrista .

Standa í rekstrarörðugleikum

Félagið flýgur allt árið um kring til Íslands frá Berlín og Dusseldorf, en þess utan flýgur það frá nokkrum fjölmennustu borgum Þýskalands og frá Vínarborg á sumrin. Talsmaður Airberlin, Theresa Kahn segir ástæðuna ekki minnkandi áhugi Þjóðverja á ferðum til Íslands.

„Eftirspurn eftir flugi okkar til Íslands er jöfn og við erum ánægð með þróunina á þessum flugleiðum okkar til landsins," segir Theresa sem segir ástæðuna vera rekstrarlegs eðlis. Félagið hefur um langt skeið átt við rekstrarvanda að stríða og þurfti félagið að skera niður flugflota sinn í vetur.

Mikil fjölgun þýskra ferðamanna

Til Íslands er nú í boði beint flug frá 11 borga í þýskalandi, þar af í fyrsta skipti til Dresden og Nürnberg.

Jafnframt hefur verið aukning á flugsamögnum milli landana yfir vetrarmánuðina og fjölgaði komum þýskra ferðamanna um 71,5% fyrstu þrjá mánuði ársins.