Tæplega 15% færri ferðamenn frá Japan komu til landsins á síðasta ári en árið 2017, en næstmesta fækkunin var hjá Finnum og svo Svíum, sem fækkaði um 12-13% hvor um sig. Loks fækkaði Norðmönnum áfram, fjórða árið í röð, eða um 8,8%, frá árinu 2017. Þetta kemur fram í nýrri Hagssjá Landsbankans .

Mesta fjölgunin var aftur á móti hjá Pólverjum, eða um 38% á milli ára, sú næstmesta var hjá Rússum, eða 20,8%, en í þriðja sæti voru Bandaríkjamenn með 20,5% fjölgun.

Þetta er tíunda árið í röð sem fjölgun er frá landinu, og hafa þeir sautján faldast frá árinu 2008, með um þriðjungsmeðalfjölgun á ári. Í heildina voru þeir nær 700 þúsund á síðasta ári, sem er um 400 þúsund fleiri ferðamenn en næst stærsti þjóðernishópurinn, sem voru Bretar með 298 þúsund ferðamenn í heildina.

Bandaríkjamenn ástæða fjölgunarinnar

Má skýra heildarfjölgun ferðamanna til landsins, sem nam 5,5% á síðasta ári, að langmestu leyti til fjölgunar Bandaríkjamanna, en þeim fjölgaði um 118 þúsnd af 121 þúsund viðbótarferðamönnum til landsins á síðasta ári.

Loks fjölgaði áttunda árið í röð í hópi ferðamanna frá öðrum en þeim 17 löndum sem tekin voru sérstaklega saman, eða um 8,1%, og er það áttunda árið í röð sem fjölgun er meðal ferðamanna frá þessum löndum, og eru þeir næst stærsti einstaki hópurinn á eftir Bandaríkjamönnum.

Jafnframt hefur hlutfall einnar þjóðar aldrei verið jafnhátt og nú, en Bandaríkjamenn voru nærri 30% þeirra. Árið 2003 voru Norðurlandabúar álíka stórt hlutfall, eða 26,3% ferðamannanna, en á síðasta ári voru þeir 7,1% þeirra. Á sama tíma hefur hlutfall Þjóðverja helmingast, úr 12% í 6%.