Í lok síðast árs hafði leikskólabörnum á Íslandi fækkað um 272, eða 1,4% frá því ári fyrr, en ekki er um hlutfallslega lækkun að ræða, heldur þvert á móti, en árgangarnir sem um ræðir eru fámennari en áður. Jafnframt var fækkun meðal starfsmanna á leikskólum, en þeim hafði fækkað um 59 í desember í fyrra miðað við fyrra ár, eða um 1,0%. Hins vegar fækkaði stöðugildum eilítið meira eða um 68, eða 1,3% milli ára að því er Hagstofan greinir frá.

Alls voru 254 leikskólar starfandi í lok ársiins, sem er fjölgun um þrjá frá árinu áður, ráku sveitarfélögin 213 þeirra, sem er fækkun um fjóra, en 41 leikskóli var rekin af öðrum aðilu, sem er sjö fleiri en ári áður. Það þýðir að einungis 16% leikskóla eru reknir af öðrum en sveitarfélögunum.

Í desember 2016 voru 31,9% starfsmanna við uppeldi og menntun leikskólabarna á Íslandi lærðir leikskólakennarar eða 1.729 manns, en þeim til viðbótar voru 857 sem höfðu lokið annarri uppeldismenntun. Síðan voru ófaglærðir rétt rúmlega helmingur starfsmanna, eða 52,3% þeirra, sem er eilítil aukning milli ára.

Aukin starfsmannavelta

Starfsmannavelta á leikskólum hefur aukist úr 25,4% í 26,5% milli ára, miðað við starfsmenn sem sinna einungis uppeldi og menntun, en sýnu meiri aukning var meðal ófaglærðra og annarra uppeldismenntaðra, en minni meðal leikskólakennaramenntaðra. Á tímabilinu 2009 til 2014 fjölgaði karlkyns starfsmönnum leikskólanna ár frá ári, og náðu þeir þá að vera 6,4% starfsmanna þeirra, en síðustu tvö ár hefur þeim fækkað og voru þeir í desember 338 í heildina, sem er 5,7% af heildarfjöldanum.

Fækkun var jafnframt meðal barna sem þurftu sérstakan stuðning vegna fötlunar, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika, en í heildina voru þau 9,7% allra leikskólabarna. Fækkunin nam 122, eða 6,2% frá fyrra ári, en mikil fjölgun var meðal þeirra árið 2013. Af 1.857 börnum í heildina sem þurftu sértækan stuðning voru drengir 1.200 þeirra.