Á sex árum hefur íbúum í miðborg Reykjavíkur fækkað um 769 manns, eða úr 8.611 í lok ársins 2011 í 7.842 nú.

Er miðborgin eina hverfið þar sem nú búa færri en var þá að því er Kjarninn greinir frá. Einnig hefur verið fækkun í Vesturbæ Reykjavíkur síðustu tvö árin, en þó 500 fleiri en var fyrir sex árum síðan.

Airbnb ástæða fækkunar

Er talið að ástæðan fyrir þessu sé fjölgun íbúða í skammtímaleigu til ferðamanna, í gegnum síður eins og Airbnb og fleiri, en talið er að allt að 3.200 íbúðir eða herbergi séu í slíkri leigu í borginni, þar af flestar miðsvæðis.

Alls staðar annars staðar hefur verið fjölgun jafnt og þétt síðan, en Breiðholt er fjölmennasta hverfið með yfir 21.300 íbúa, en árið 2011 voru þeir 20.491.

Íbúafjöldi næstfjölmennasta hverfisins, Grafarvogs, hefur verið nokkuð stöðugt, með 75 manna fjölgun, en í lok síðasta árs voru þeir 17.944.

Laugardalur orðið fjölmennara en vesturbær

Laugardalur er nú þriðja fjölmennasta hverfið, en árið 2011 var það eilítið fámennara en Vesturbærinn en síðan þá hefur íbúafjöldi hverfisins í kringum Laugardalinn farið úr 15.357 íbúum í 16.135.

Mest fjölgun var í Grafarholti og Úlfarsfelli á þessum sex árum, en það síðarnefnda er nýjasta hverfi borgarinnar, og Grafarholt það næst nýjasta. Bjuggu 928 fleiri í þessum tveimur hverfum í lok síðasta árs en í lok ársins 2011.