Indigo Partners LLC og WOW air hafa náð bráðabirgðasamkomulagi um að Indigo Partners fjárfesti í Wow air. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Wow air.

Indigo Partners er fjárfestingafélag stofnað af W. A. Franke árið 2003 og fjárfestir sérstaklega í flugfélögum og tengdum greinum og eru stórir hluthafar í Wizz air og flugfélögum í Evrópu og Ameríku. Indigo Partners er með höfuðstöðvar í borginni Phoenix í Bandaríkjunum.

Í tilkynningunni segir að ekki verði gefið upp um efni samkomulagsins. Þá eigi áreiðanleikakönnun eftir að fara fram en félögin vonist til að geta hafist samstarf sem allra fyrst. Þá segir jafnframt að ef fjárfestingunni verði þá verði Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi Wow air, áfram meirihlutaeigandi í félaginu. Bandaríska ráðgjafafyrirtækið Plain View Partners hefur aðstoðað forsvarsmenn WOW air í viðræðunum við Indigo Partners.

Í tilkynningu er haft eftir Skúla Mogensen, forstjóra Wow air, að áfram sé eftirspurn eftir lággjalda flugferðum og sá markaður vaxi hratt á heimsvísu. Með Indigo sem samstarfsaðila vonist Wow til að færa sér í nyt hinn mjög svo spennandi markað. „Ég er spenntur fyrir því að vinna með Indigo og sannfærður um að þetta sé besta langtíma aðgerðin fyrir okkar starfsfólk og farþega," segir Skúli.

Haft er eftir Bill Frankie, framkvæmdastjóra Indigo Partners, að Skúli, stjórnendur Wow air og starfsfólk hafi unnið stórgott starf við að búa til virt lágjaldaflugfélag.

Eiga í flugfélögum víða

Auk þess að vera stórir hluthafar í Wizz Air, er Indigo Partners stærsti hluthafinn í Frontier Airlines, sem er með höfuðstöðvar í Denver í Bandaríkjunum, Volaris Airlines í Mexíkó og JetSMART í Chile. Þá var fyrirtækið stór fjárfestir í Tiger Airways í Singapúr sem og Spirit Airlines, sem er með höfuðstöðvar í Ft. Lauderdale í Flórída.

Þess má geta að Ben Baldanza, sem sat í stjórn WOW air þar til í ágúst, var forstjóri Spirit Airlines frá árinu 2005 til 2016. Túristi greindi fyrst frá því að Baldanza hefði hætt í stjórninni.

Skúli boðaði gleðifréttir

Í morgun var greint frá því að Icelandair myndi falla frá kaupum á Wow air. Skúli Mogensen gaf út á mánudag og þriðjudag að fleiri aðilar en Icelandair hefðu sýnt Wow air áhuga. Í tölvupósti til starfsmanna í morgun eftir að fallið var frá kaupunum sagði Skúli að stutt væri í að hægt væri að færa gleðifréttir.

Fjárfestingin á sér stað í kjölfar þess að fjárhagsstaða Wow air hefur versnað á undanförnum vikum. Í bréfi sem Skúli sendi eigendum skuldabréfa Wow sagði hann að unnið væri hörðum höndum af því að tryggja langtímafjármögnun þess. Sala hefði orðið minni en vænst var og lánadrottnar hefðu hert skilyrði sín gagnvart félaginu, m.a. í kjölfar neikvæðrar fjölmiðlaumfjöllnunar um félagið. Þá hafi olíuverð hækkað nokkuð þó sú hækkun hafi nú gengið til baka. Auk þess hafi gjaldþrot Primera Air haft neikvæð áhrif. Ekki hefði orðið að ætlaðri sölu- og endurleigusamningum á flugvélum sem hafi haft í för með sér að lausafjárstaða Wow air varð 25 milljónum dollara verri en ráðgert hafi verið.

Þá minnkaði Wow air flugflota félagsins um fjórar flugvélar á þriðjudaginn eða 20% og telur hann nú sextán flugvélar. Wow var einnig valið lággjaldaflugfélag ársins af samtökun CAPA á þriðjudaginn.