Jón Gunnarsson samgöngumálaráðherra hyggst skipa starfshóp til að kanna möguleikann á starfsemi fyrirtækja á borð við Uber og Lyft hér á landi til að mæta eftirspurn eftir leigubílum. Enn fremur hefur ráðherra ákveðið að fjölga leyfum til leigubílaaksturs. Þetta kemur fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Ráðherra segir að hann geri ráð fyrir því að ákveðið verði um fjölgun leigubílaleyfa á næstunni og á sama tíma þá fer fram gagnaöflun um breytingar á alþjóðavettvangi á þessum máum. Hann segir að starfshópurinn skoði sérstaklega Uber og Lyft.

Pawel vill frelsa leigubílamarkaðinn

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá snemma í sumar lagði Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar,fram fyrirspurn til Jóns Gunnarssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra , um viðbrögð við áliti Eftirlitsstofnunar EFTA um löggjöf um leyfi til leigubílaaksturs. Pawel tekur fram í ræðu á Alþingi að lagaákvæðum sem hamla eðlilegri framþróun ætti að breyta.

Einnig spurði Pawel ráðherra hvort hann hygðist bregðast við áliti Eftirlitsstofnunar EFTA frá 22. febrúar síðastliðnum um norska löggjöf um leigubíla, en þar kemur fram að fjöldatakmarkanir á útgefnum leyfum til leigubílaaksturs brjóti, að mati stofnunarinnar, í bága við EES-samninginn. Þar hafði Eftirlitsstofnunin út á þrennt að setja; fjöldatakmörkun atvinnuleyfanna, veitingu atvinnuleyfanna og kröfuna um aðild að leigubílastöð.

Í ræðu sinni sagði Pawel meðal annars að frelsun á leigubílamarkaði hefði svo mikið meira í för með sér en að fjölga leigubílum á götunum: „Samgöngur myndu batna, biðraðir eftir skutli um helgar myndi þurrkast út, bílar gætu nýst betur. Við ættum að bregðast við frelsi með gleði en ekki tortryggni. Við ættum að spyrja okkur sjálf: Ef við værum að skrifa þessi lög í dag myndum við komast að þessari niðurstöðu sem við búum við?“ sagði Pawel.