Sif Jakobsdóttir er fædd og uppalin á Akureyri en ákvað ung að flytja til Svíþjóðar og nema gullsmíði. Nú, tæpum 20 árum síðar, rekur hún margverðlaunað skartgripafyrirtæki undir eigin nafni og selur vörur sínar á yfir 1.000 stöðum í 19 löndum og segir sjálf að þetta sé aðeins byrjunin. Fyrirtækið sem keppir á einstaklega erfiðum markaði alþjóðatískunnar hefur að jafnaði stækkað um 35-40% milli ára og segir Sif það markmið sitt að vörumerkið Sif Jakobs Jewelry verði eitt af þeim þekktustu í heiminum.

Yfir 1.000 sölustaðir í 19 löndum

Hvenær stofnar þú svo formlega Sif Jakobs Jewelry?

„Ég byrjaði rólega árið 2008 og var þá aðallega að hanna fyrir íslenskan markað með verkefnum á borð við Flóru Íslands og Bleiku slaufuna. Þetta fór allt hægt og rólega af stað á meðan ég var að þreifa fyrir mér en svo fórum við á fullt með fyrirtækið árið 2009.“ Hvað er verið að selja Sif Jakobs Jewelry í mörgum löndum um þessar mundir? „Í dag erum við að selja skartgripina okkar í 19 löndum og erum með yfir 1.000 sölustaði. Við erum enn sem komið er ekki komin með okkar eigin verslun en það er þó eitt af framtíðarmarkmiðum okkar. Söluferli okkar er þannig að við byrjum að semja við verslanir um sölu á vörunum okkar og þegar reynsla er komin á samstarfið og þær eru orðnar ánægðar með okkur reynum við að fá að taka meira og meira pláss í verslunum. Við erum nú þegar farin að setja upp eins konar búð í búð (e. shop in shop) víða en það þýðir að við fáum að setja upp heilan eða hálfan vegg í verslununum sem sýna þá bara okkar vörur og við fáum þá aukið tækifæri til að hanna rýmið. Við höfum sérstaklega verið að gera þetta á stórum mörkuðum á borð við Þýskaland, England og Danmörku.“

Alþjóðlegur markaður alltaf markmiðið

Nú er hinn alþjóðlegi tískumarkaður sérstaklega krefjandi og mörgum sem hefur mistekist að fóta sig á honum, var það alltaf markmið þitt að Sif Jakobs Jewelry yrði alþjóðlegt fyrirtæki?

„Já, það var alltaf markmið mitt að fara inn á alþjóðlegan markað en áður en ég réðst í það verkefni framkvæmdi ég hins vegar ýmsar prófanir til að tryggja að ég væri með rétta vöru í höndunum. Ég sá um leið að svo var. Við seldum strax mjög vel á Íslandi og ég fann fyrir mikilli eftirspurn eftir hönnuninni. Fyrirtækið gekk jafnframt vel í Danmörku og í dag er staðan sú að eftirspurnin er meiri en við ráðum við um þessar mundir. Vegna þessa höfum við tímabundið neyðst til að hafna samstarfi við fyrirtæki í ýmsum löndum sem vilja selja hönnunina. Okkar skoð- un er sú að fyrirtæki sem er ekki eldra en okkar þurfi að stíga varlega til jarð- ar. Um þessar mundir er til að mynda bandarískt fyrirtæki að leggja hart að okkur að fá að selja skartgripina víðs vegar um Bandaríkin en við þurfum einfaldlega að einbeita okkur að þeim mörkuðum sem við erum nýkomin inn á. Eftir 2-3 ár getum við svo haldið áfram að bæta við okkur fleiri stórum markaðssvæðum.

Við erum ekki enn komin inn á Bandaríkjamarkað en ástæðan fyrir því er sú að við viljum ekki fara inn á nýjan markað af hálfum hug. Það er skoðun mín að ef þú gerir eitthvað af hálfum hug þá gengur það aldrei upp. Þú færð bara eitt tækifæri til að koma inn í nýtt land og þú verður að nýta það almennilega og það krefst mikillar vinnu. Það er ekki bara nóg að selja vöruna inn í verslunina því hún þarf líka að seljast út og við vinnum mjög náið með söluaðilum okkar. Þetta er mikið ferli og við erum með nákvæmar greiningar á því hvernig salan gengur á hverjum stað fyrir sig.“

Viðtalið við Sif má lesa í heild sinni inná Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi undir Tölublöð.