Stjórn færeyska flugfélagsins Atlantic Airways leitar eftir því að kaupa 1/3 hluta allra hlutabréfa í félaginu og afskrá það síðan af hlutabréfamarkaði. Hlutabréf félagsins eru skráð á markað í Kauphöllina og í Kaupmannahöfn. Færeyska heimastjórnin ræður yfir 2/3 hlutum í flugfélaginu og munu uppkaupin færa það allt í hendur Færeyinga.

Fram kemur í tilkynningu að stjórnin bjóði hluthöfum 210 danskar krónur á hlut eða sem svarar til 71 milljóna danskra króna, rúma 1.480 milljónir danskra króna.

Skráð á markað 2007

Hlutabréf Atlantic Airways voru skráð í Kauphöllina hér á landi rétt fyrir áramótin 2007 og er nú eitt þriðja færeyskra félaga sem þar eru skráð. Flugfélagið hefur ekki átt góðu gengi að fagna á markaði. Það stóð í 258 dönskum krónum á hlut í fyrstu. Það fór lægst í 95 krónur á hlut þegar verst lét árið 2012. Nú stendur það í 144 dönskum krónum á hlut. Tilboð stjórnarinnar er þessu samkvæmt 46% yfir gengi bréfa Atlantic Airways eins og það stendur í dag. Markaðsvirði félagsins nemur 149 milljónum danskra króna, jafnvirði rúmra 3,1 milljarðs íslenskra króna.

Í Viðskiptablaðinu í fyrravor kom fram að áhugi fjárfesta á færeysku félögunum sem skráð eru í Kauphöllinni hér er afar lítill í samanburði við áhuga á íslensku félögunum.