Samkvæmt tölum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, kemur fram að á milli áranna 2014 og 2016 þá hafi hlutfallsleg fækkun verið á þeim sem taka námslán um 32,5% á Íslandi. Þetta er til marks um það að talsvert færri sækja um námslán núna í haust en árin áður.

Svipað er uppi á teningnum hjá þeim sem hafa tekið lán erlendis en hefur þeim lánum fækkað um 22,2% á sama tíma. Samtals var lækkunin 30,4% á tímabilinu 2014 til 2016.

Fækkun gæti tengst töf á nýju námslánafrumvarpi

Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri LÍN, segir að henni vitanlega sé ekki mikil fækkun á nemendum í háskólunum. Hún bendir einnig á að atvinnustig sé hærra en áður hefur verið.

Hrafnhildur hefur hins vegar heyrt það mikið rætt um það hjá stúdentum að þeir hafa beðið með að fara í nám vegna mögulegu styrkjakerfi. Frumvarpið er búið að vera lengi í umræðunni og telur Hrafnhildur það miður að ekki hafi orðið að nýju styrkjakerfi og jafnframt að það sé hagstætt fyrir stóran hlut nemenda.

Vinna fer til spillis

„Það var bæði mikil vinna lögð í þetta og ég held að þetta hafi svarað því ákalli sem hafi verið í þjóðfélaginu að lánasjóðurinn tæki upp sambærilegt kerfi og er í Norðurlöndunum,“ segir Hrafnhildur í samtali við Viðskiptablaðið. Þar sem að í dag er síðasti dagur þingsins eru nánast engar líkur á því að frumvarpið fari í gegn.

„Það ætti eiginlega að vera frestun í námi hjá námsmönnum sem hefur verið að bíða eftir að nýja frumvarpið fari í gegn. En kannski hefur það fólk nám um næstu áramót,“ tekur Hrafnhildur fram.

Vön pólitískum óstöðugleika

Hrafnhildur tekur fram að LÍN sé vant þessum pólitíska óstöðugleika sem umkringir sjóðinn. „Þetta er pólitískt efni vegna þess að það eru svo mikil afskipti af honum.“ Hún segir þó að sjóðurinn væri að reyna að færa sig nær nútímanum. „Við höfum verið að benda á þá vankanta sem eru á sjóðnum - sem þýðir að ríkissjóður þurfi einfaldlega að leggja meira fé til sjóðsins að öllu óbreyttu.“