*

þriðjudagur, 23. apríl 2019
Innlent 27. júlí 2018 15:06

„Íslendingar furðulega sólgnir í ís"

Þrátt fyrir sögulegt sólarleysi í sumar bera ísbúðir og pylsuvagnar sig ágætlega. Aðsóknin dreifist þó jafnar en síðastliðin sumur.

Ritstjórn
Íslendingar láta ekki sólarleysið stoppa sig í að fá sér ís.
Haraldur Guðjónsson

Ísbúðir og pylsuvagnar segja sumarið hafa gengið ágætlega þrátt fyrir heldur dræmt sumar. Álagið dreifist þó jafnar, það séu færri „toppar“, sem fylgi sólardögum.

Eins og flestir Íslendingar eru eflaust meðvitaðir um hefur sumarið í ár verið eitthvað það sólarlausasta í manna minnum, en RÚV greindi frá því í byrjun júlí að júnímánuður hefði slegið 100 ára sólarleysismet.

Þrátt fyrir það segir Sumarliði Gunnar Halldórsson, sonur eiganda Erluíss reksturinn í sumar búinn að vera þokkalega góðan. „Það er alveg furða hvað Íslendingar eru sólgnir í ís. Það hefur verið minna að gera en samt ekki eins mikið minna og maður hefði haldið. Þetta er eiginlega meira svona jafnara bara, það er náttúrulega alveg pakkað þegar sólin kemur. Maður náttúrulega finnur alveg fyrir þessu en ekki þannig að það skaði eitthvað. Við getum ekki kvartað.“

Sara hjá Ísbúð Garðabæjar segir sumarið hafa verið fínt, en mætti þó fara betur. „Það vantar svolítið sólina sko. Það er samt ekkert lítið að gera hjá okkur, en það mætti alveg vera meira. Ég myndi segja að það væru bara allar ísbúðir að lenda í því.“

Smári Vilhjálmsson, eigandi Snæland, segist hafa fundið lygilega lítið fyrir veðrinu. „Það hefur gengið alveg ótrúlega miðað við rigninguna.“ Hann segir álagið dreifast jafnar en síðastliðin sumur, en sölutölurnar séu þó svipaðar og í fyrra.

Baldur Ingi Halldórsson, eigandi og framkvæmdastjóri pylsuvagnakeðjunnar Bæjarins Beztu, talar á svipuðum nótum. „Við höfum fundið pínulítið fyrir því en það er nú eiginlega ekki hægt að kvarta yfir því samt. Það hefur tekið toppana af. Færri risadagar í miðri viku.“

Stikkorð: Ísbúð Veður Bæjarins Beztu
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim