Á sama tíma og fjöldi bandarískra ríkisstarfsmanna hafa ekki mætt til vinnu í fimm vikur, vegna deilna milli þings og forseta um fjárlög landsins er atvinnuleysið í sögulegu lágmarki. Hafa ekki færri sótt um atvinnuleysisbætur síðan 1969, að því er fram kemur í nýjum tölum vinnumálastofnunar landins. Lækkaði fjöldinn um 13 þúsund manns, niður í 199 þúsund, árstíðarleiðrétt.

Ef horft er til meðaltalsútreikninga síðustu fjögurra vikna nemur lækkunin 5.500 manns, niður í 215 þúsund. Á sama tíma hækkaði fjöldi bandarískra ríkisstarfsmanna án launa í 25.419, sem er tvöföldun frá fyrri viku, en þessi fjöldi er ekki inn í almennum atvinnuleysistölum.

Tölurnar um fjölda þeirra sem sækja um atvinnuleysisbætur eru ein af fáum hagtölum sem ríkisstofnanir í Bandaríkjunum gefa enn út vegna lokunarinnar. Þrátt fyrir merki um sterka eftirspurn spá flestir hagfræðingar því að hagkerfið muni bera skaða af lokuninni, og geti hagvöxtur minnkað niður í 1,5 til 2%, á fyrsta ársfjórðungi, eftir því hve lengi hún varir.

Í desember var mikið um nýjar ráðningar, eða um 312 þúsund störf, en þá jókst atvinnuleysið einnig, eða úr 3,7% í 3,9%. Það kom þó að mestu til vegna aukinnar þátttöku í atvinnulífinu, það er fleiri hafi leitað sér að vinnu sem hafi tímabundið hækkað atvinnuleysið að því er ksl.com greinir frá.