Komið hefur í ljós að fjármögnunarnet Norður-Kóreu er fágaðra en áður var talið. Það er þó enn talið afar viðkvæmt gagnvart efnahagslegum þvingunaraðgerðum. Þetta eru niðurstöður nýrrar skýrslu um fjármálakerfi og utanríkisviðskipti Norður-Kóreu. Þær þykja staðfesta að herði vestræn ríki þvingunaraðgerðir gagnvart þeim sem stunda viðskipti við Norður-Kóreu muni það hafa áhrif að því er kemur fram á vef The Wall Street Journal . Líklegt þykir því að skýrslan verði notuð sem rökstuðningur fyrir því að herða á viðskiptaþvinganir gegn ríkinu.

Í skýrslunni er vísað til einnar færslu sem er rakin en þar notaði vopnasali, sem rekinn er af norður-kóresku leyniþjónustunni, leppfyrirtæki (e. front company) í Hong Kong til þess að kaupa íhluti frá austur-asískum raftækjasala. Greiðslan fór svo í gegnum reikning hjá Bank of America samkvæmt skýrslunni en raftækjasalin vissi ekki að hann ætti í viðskiptum við Norður-Kóreu.

Þá eru smáatriðin í færslunni sögð varpa ljósi á það hvernig leyniþjónustan í Norður-Kóreu hefur notað bandaríska fjármálakerfið til þess að kaupa hergögn en bann ríkir við því, að selja Norður-Kóreu slík gögn, bæði með ályktunum Sameinuðu Þjóðanna og samkvæmt lögum í Bandaríkjunum.