Fjármagnstekjuskattur verður hækkaður um tvö prósentustig í 22%, tekjuskattur verður lækkaður og ekki verður af boðaðri hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu. Þetta er meðal þess sem rataði í fjölmiðla úr drögum að stjórnarsáttmála boðaðrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (VG). Stjórnarsáttmálinn var birtur í morgun.

Lækkun tryggingagjalds, áform um lengingu fæðingarorlofs og breytingar á húsnæðisbótakerfunum eru meðal þess sem kemur fram í sáttmálanum.

Tryggingagjaldið lækki um 1%

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir löngu tímabært að lækka tryggingagjaldið og fagnar að það virðist hafa ratað inn í drög að stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. „Tryggingargjaldið skilar ríkissjóði 100 milljörðum samkvæmt áætlunum fyrir árið 2018. Atvinnuleysi er komið undir náttúrulegt atvinnuleysi og ekki seinna vænna að standa við fyrirheit sem flokkarnir allir þrír gáfu fyrir kosningar um lækkun tryggingagjalds. Ég geng að því sem gefnum hlut að það lækki. Við teljum okkur eiga inni allavega eitt prósent lækkun gjaldsins hið minnsta,“ segir Halldór Benjamín.

Kjaramálin verða auk þess eitt stærsta verkefni næstu ríkisstjórnar í upphafi kjörtímabils. Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir ljóst að þeim flokkum sem nú eru að mynda ríkisstjórn er umhugað um kjaramálin. Meðan á stjórnarmyndunarviðræðunum stóð ræddu samninganefndir flokkanna við aðila vinnumarkaðarins, sem þykir til marks um skilning á mikilvægi verkefnisins.

„Við fórum yfir atriði sem lúta að réttindum okkar hóps,“ segir Gylfi. „Hluti af því snýr að atvinnuleysistryggingasjóði, fæðingarorlofssjóði og ábyrgðarsjóði launa, sem eru fjármagnaðir með tryggingagjaldi. Það á að vera samhengi milli tryggingagjalds og stöðu sjóðanna og ekki ástæða til að safna meiri afgangi í þessa sjóði en nauðsyn krefur,“ segir Gylfi og telur því svigrúm til að lækka gjaldið.

Hins vegar eru atvinnuleysisbætur að sögn Gylfa í sögulegu lágmarki og hámarkslaun sem ábyrgðarsjóður launa greiðir við gjaldþrot vinnuveitanda um helmingur af meðallaunum. „Það verður að endurreisa þau réttindi sem eru í sjóðunum. Ég vara við því að það væri vont að lenda í samdrætti, sem ég er reyndar ekki að spá, og þurfa á sama tíma að hækka bæturnar þegar þeim sem þær þiggja fjölgar.“ Gylfi segir einnig mikilvægt að standa vörð um húsnæðisbætur og persónuafsláttinn og gerir þann fyrirvara að hann hafði ekki séð stjórnarsáttmálann þegar rætt var við hann.