Viðskiptaráð segir frumvarp sem Jón Gunnarsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur lagt fyrir Alþingi um bílastæðagjöld auka sjálfbærni í ferðamennsku á Íslandi í nýrri umsögn sinni um frumvarpið.

Segja þeir frumvarpið sem heimilar gjaldtöku fyrir notkun bílastæða og þjónustu sem henni tengist á landsbyggðinni, til að mynda við ferðamannastaði, vera til þess fallið að styðja við áframhaldandi uppbyggingu innan ferðaþjónustu á Íslandi.

Ráðið segir hættu á að náttúruperlur Íslands geti legið undir skemmdum ef ekki verið ráðist í breytingar á umgjörð ferðamannastaða hérlendis og vísar í að ýmsir aðilar hafi mælt fyrir um kost bílastæðjagjalda sem form gjaldtöku.

Nefna þeir að hvort tveggja í skýrslu starfshóps um auknar tekjur sveitarfélaga af ferðamönnum sem og í tillgöum sjálfstæðrar verkefnisstjórnar samráðsvettvangs um aukna hagsæld hafi verið mælt með notkun bifreiðagjalda.

Ráðið segir bílastæðagjöld fýsilegt form gjaldtöku því þau leggist beint á þá sem sæki ferðamannastaðina á sama tíma og þau hafi takmörkuð neikvæð áhrif á upplifun gesta af ferðamannastaðnum.

Auk þess séu slík gjöld alþekkt víða um heim, en þau geti jafnframt dregið úr átroðningi á vinsælustu áfangastaðina og skapað hvata fyrir aðila innan greinarinnar til að koma á fót nýjum áfangastöðum.