Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála hefur staðfest ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) frá því í október í fyrra, þar sem Íslandspóstur var hindraður í áformum sínum um að fella niður viðbótarafslætti hjá söfnunaraðilum á póstmarkaði. Þetta kemur fram í frétt á vef Félags atvinnurekanda .

Söfnunaraðilar eru fyrirtæki á borð við Burðargjöld og Póstmarkaðinn, sem safna pósti frá stórnotendum og miðla áfram til Íslandspósts, sem hefur einkarétt á dreifingu bréfa undir 50 grömmum.

Einbeittur brotavilji þrátt fyrir sáttina

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að félagið fagni að sjálfsögðu niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. „Niðurstaðan gat ekki orðið önnur. Það sem vekur hins vegar athygli er einbeittur vilji ríkisfyrirtækisins til að drepa af sér samkeppni, þrátt fyrir sátt Samkeppniseftirlitsins og Íslandspósts, sem átti að taka á óviðunandi samkeppnisháttum fyrirtækisins. Það vekur líka athygli að Íslandspóstur eigi svona mikla peninga til að kosta málarekstur fyrir úrskurðarnefndinni á sama tíma og fyrirtækið biður skattgreiðendur um aðstoð. Það verður fróðlegt að sjá hvort ríkisfyrirtækið eyðir enn meiri peningum í að sækja málið fyrir dómstólum,“ segir Ólafur.

Ólafur segir fleiri dæmi um að Íslandspóstur taki sáttina við Samkeppniseftirlitið ekki alvarlega og vísar meðal annars til nýlegrar kæru FA vegna lánveitinga Póstsins til dótturfyrirtækisins ePósts, sem ekki eru í samræmi við sáttina.