Ríkiskaup munu bráðlega auglýsa útboð á farmiðakaupum allra ráðuneyta. Síðast þegar slíkt útboð var haldið fyrir fjóru og hálfu ári bárust aðeins tilboð frá íslensku flugfélögunum Icelandair og Iceland Express, en nú er útlit fyrir að erlend flugfélög muni einnig taka þátt í útboðinu.

Ólafur Stephensen, formaður Félags atvinnurekenda, segir í samtali við Túrista að þetta séu góðar fréttir. „Það er auðvitað frábært að sjá áhuga erlendis frá. Því fleiri sem taka þátt, þeim mun meiri er samkeppnin, sem svo leiðir af sér lægra verð og aukinn ábata fyrir sameiginlegan sjóð skattgreiðenda,“ segir hann.

Síðasta útboð var umdeilt og komst kærunefnd útboðsmála að þeirri niðurstöðu að Ríkiskaup hefðu þá brotið gegn lögum um opinber innkaup. Fram kemur í frétt Túrista að líklegt sé að nú verði boðnar út fleiri flugleiðir og settar skýrari kröfur um fjölda ferða og möguleika á tengiflugi.