Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs, fagnar nýjum lögum um jafnlaunavottun kynjanna þó svo að hún viðurkenni að auknar kvaðir valdi alltaf ákveðnum ótta. Einnig þarf að horfa lengra en á jafnlaunavottunina, sem einblínir á sömu laun fyrir sömu störf, og horfa á muninn á karla- og kvennastörfum. „Ég fagna öllum skrefum í jafnréttismálum og mér finnst frábært að núna séum við komin með ráðherra sem hefur opinberlega titilinn félags- og jafnréttisráðherra.

Auðvitað hræðumst við alltaf þegar það eru settar auknar kvaðir. Ég held hins vegar að þetta sé rétt skref. Það er staðreynd að konur eru lægra launaðar og hafa lægri ævilaun en karlar. Við þurfum því einnig að horfa til hvernig við verðmetum störfin og þar er því miður lægra verðmat á hefðbundnum kvennastörfum en karlastörfum,“ segir Katrín.

Bakslag gagnvart konum

Þú hefur vettvang til að vinna í þessu sem formaður Viðskiptaráðs. Eru þetta áherslur ráðsins?

„Algjörlega. Við erum nýbúin að ráða nýjan framkvæmdastjóra, Ástu Sigríði Fjeldsted, sem kom til starfa 1. júní síðastliðinn og hún hefur verið að vinna með stjórninni í að móta næstu áherslur. Við sjáum fyrir okkur að helstu málefnin séu stafræn framtíð, menntun, alþjóðavæð­ingin og umhverfis- og loftslagsmál. Frá því að ég tók við formennskunni hef ég sagt að eitt af mínum kjarnaverkefnum sé fjölbreytileiki. Mér finnst við horfa allt of einsleitt á hlutina í svo mörgum tilfellum. Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu er látið hljóma eins og það hræðilegasta af öllu hræðilegu, en samt er fullt af einkarekstri í kerfinu, meðal annars hjá sérfræðilæknum, sem öllum finnst sjálfsagt að fara til og nýta einkareka þjónustu. Þarna vil ég sjá okkur fara í meiri mæli út í það sem er að gerast í heilsugæslunni, að fjármagn fylgi einstaklingnum og það breyti engu hver veitir þjónustuna.

Mér finnst líka vanta fjölbreytileika í stjórnun og mér svíður það rosalega að við sjáum ekki fleiri konur í stjórnendahlutverki. Við hjá Viðskiptaráði tókum saman 400 stærstu fyrirtækin og hlutfall kvenna sem stýra þessum fyrirtækjum var 12 prósent. Erum við ekki komin lengra? Ég verð að viðurkenna að nú árið 2017 finnst mér vera komið pínu bakslag gagnvart konum, mér finnst aftur vera komin svolítil strákastemning. Eins og kemur fram í úttekt Kjarnans frá 13.júní þá stýra karlmenn stjórnmálum, karlmenn stýra lífeyrissjóðunum, karlmenn stýra flestum fjármálatengdum fyrirtækjum, það er enginn kvenkyns forstjóri í Kauphöllinni og einungis 12 prósent stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins eru konur. Er þetta góður árangur eftir margra ára baráttu?

Ég er allavega ekki sátt og ef þetta væru mælikvarðar á árangur í fyrirtækjarekstri þá fengi það fyrirtæki falleinkunn! Mér finnst þetta enn vera svolítið þannig að þetta er gert að máli kvenna og er oft sagt við mig að ég tali allt of mikið um jafnréttismál, en ég ætla ekki að hætta því, fyrr en árangurinn verður orðinn betri en þessar tölur segja til um – það skondna við það að það eru ekki konur sem kvarta undan þeirri umræðu heldur karlar, af hverju sem það nú er! Jafnréttismál snúast um hagsæld – bæði fjölskyldunnar og fyrirtækjanna.“

Viðtalið við Katrínu Olgu má lesa í heild sinn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.