Viðskiptavinir Nova munu á næstu dögum byrja að borga fyrir notkun á rafrænum skilríkjum í farsíma. Önnur fjarskiptafyrirtæki velta því nú fyrir sér hvenær byrjað verði að innheimta fyrir notkun rafrænna skilríkja.

Í því sambandi þarf þó að líta til fleiri þátta, en í nýrri gjaldskrá Auðkennis kemur fram að í byrjun næsta árs verði fjarskiptafyrirtækin rukkuð um 88 til 110 krónur á mánuði fyrir hvert virkt rafrænt skilríki, eða á bilinu 1.056 til 1.320 krónur á ári. Kostnaðurinn hleypur því á tugum milljóna á ári fyrir hvert fjarskiptafyrirtæki.

Þegar skuldaniðurfellingin var kynnt var það gert að skilyrði að þiggjendur hennar skyldu fá sér rafræn skilríki hjá Auðkenni, sem er í eigu bankanna, Símans og Teris. Var ýmist hægt að fá rafræn skilríki hjá fjármálastofnunum eða í farsíma, en aðrir kostir voru ekki í boði.

Þetta setti fjarskiptafyrirtæki í erfiða stöðu, því ákvörðun um að innleiða ekki skilríkjakerfið gat veikt samkeppnisstöðu þeirra. Hefði eitthvert fjarskiptafyrirtækjanna ekki innleitt skilríkjakerfi Auðkennis hefðu allir viðskiptavinir þess sem sótt höfðu um leiðréttingu þurft að leita á náðir samkeppnisaðila þeirra eða bankanna

Meðal annars af þessari ástæðu ákváðu öll fjarskiptafyrirtækin að innleiða skilríkjakerfi Auðkennis, þrátt fyrir óvissu um kostnað og áhrif hans á verð til neytenda til lengri tíma litið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .