Svokölluð meðmælavísitala íslenskra fyrirtæka er lág og eru einungis 11% fyrirtækja með jákvæða einkunn árið 2016. Þetta kemur fram í könnun MMR á meðmælavísitölu 80 íslenskra fyrirtækja í 20 atvinnugreinum. Var meðalvísitalan jafnframt neikvæð í öllum 20 atvinnugreinunum en þó er vísitalan hærri fyrir 56% fyrirtækja í ár miðað við árið í fyrra.

Mælikvarði á tryggð viðskiptavina

Meðmælavísitalan er mælikvarði á tryggð viðskiptavina við fyrirtæki og byggir á því að flokka viðskiptavini í þrjá flokka, hvetjendur, hlutlausa og letjendur.

Byggir flokkunin á því hvernig svarendur svöruðu spurningunni, hversu líklegt eða ólíklegt er að þú mælir með fyrirtæki við vini eða ættingja? Var spurningunni svarað á kvarðanum 0, fyrir mjög ólíklegt, til 10 mjög líklegt.

Ekki tilbúnir til að mæla með þjónustu eða vörum fyrirtækjanna

Meðmælavísitalan mældist á bilinu -84,5% til 31,6% og voru aðeins 11% mældra fyrirtækja með jákvæða meðmælavísitölu, sem þýðir að meðal 89% fyrirtækja var minnihluti viðskiptavia tilbúinn til að mæla með þjónustu eða vörum fyrirtækisins.

Þó virðist staðan ver að batna því 56% mældra fyrirtækja virðast vera að bæta sig á milli ára, og ef litið er til atvinnugreina í heild, má sjá að meðal meðmælavísitalan hækkaði meðal 65% atvinnugreina á milli áranna 2015 til 2016. Af þessu má sjá að fleiri viðskiptavinir voru tilbúnir að mæla með þjónustu fyrirtækja en í fyrra.

Bifreiðaumboð og versktæði líklegust til að fá meðmæli

Ef skoðaður er munurinn á milli flokka voru viðskiptavinir bifreiðaumboða og bifreiðaverkstæða heilt yfir líklegastir til að mæla með þjónustu fyrirtækja í atvinnugreininni. Þar á eftir komu atvinnugreinar í flokkunum Önnur verslun og vefþjónustur en það var bæting milli ára í báðum þeim flokkum.