Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir að hlutur stjórnvalda sé stór, til þess að samkomulagið um útlínur kjarasamninga sem verkalýðsfélögin náðu í nótt við Samtök atvinnulífsins haldi. Þetta kom fram í samtali við Ragnar Þór í Bítinu á Bylgjunni, en hann segir það ekki eiga að koma ríkinu á óvart hvað þurfi til að klára samningana.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hefur Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagt að tillögur ríkisins inn í kjaraviðræðurnar sem fram hafa komið muni ekki ná lengra.

„Það liggur fyrir að við höfum verið að fara fram á skattalækkanir á lágtekju- og millitekjuhópana og það er að hluta til í höfn,“ segir Ragnar Þór og viðurkennir aðspurður að hluturinn sem deiluaðilarnir séu að gera ráð fyrir að ríkið komi með til viðbótar sé nokkuð stór.

„Það er enginn ágreiningur í húsnæðismálunum og búið að klára fullt af málun, en nokkur stór mál sem út af standa.“ Eins og fram kom í fréttum í gærkvöldi og í morgun hafa verkföllum verið frestað , þó ekki hjá strætóbílstjórum á háannatíma í dag .

Gjaldskrárhækkanir megi ekki þurrka út árangur

Spurður hvort að sveitarfélögin þurfi þá að koma að málunum eins og fjármálaráðherra hafði bent á að væri rökrétt næsta skref sagði Ragnar Þór að um fjölþætt mál væri að ræða, til að mynda gjaldskrárhækkanir.

„Þetta snýst um svo marga hluti sem við þurfum að ná að verja. Það er ekki nóg að skrifa bara undir kjarasamning eins og hefur verið gert hér undanfarin ár og svo hækkar bara verðlag eins og enginn sé morgundagurinn og frístundastyrkir lækka, og svo hækka iðgjöldin jafnvel helmingi meira,“ segir Ragnar sem spurður var hvort um væri að ræða umtalsverða kjarabót fyrir þá lægst launuðu.

„Ég held að það sé óhætt að segja það, þetta var gríðarleg áskorun, margt sem hangir á spilunum, ekki bara kjarasamningurinn sjálfur. Heldur líka allt umhverfið, og framhaldið sem við erum að fara í núna, því það er til lítils að semja um krónur ef þær eru hirtar af okkur jafnharðan einhvers staðar annars staðar.“

Krónutöluhækkanir sem fari upp stigann

Ragnar Þór segir samninginn vera mjög umfangsmikinn, en deiluaðilar voru í viðræðum til um tvö leitið í nótt. Síðan var mætt aftur klukkan 9 í morgun í Karphúsið á fund með stjórnvöldum.

„Eina sem ég get sagt er að þetta verða krónutöluhækkanir, en þær fara upp stigann,“ segir Ragnar Þór um eðli samninganna. Hann var jafnframt spurður hvort fall Wow air hafi haft áhrif á samningagerðina og játaði hann því að það hefði veikt samningsstöðu verkalýðsfélaganna.

„Að sjálfsögðu kemur fall Wow air inn í þetta, þegar þú telur þig vera með ákveðna samningsstöðu og svo fellur eitt af lykilfyrirtækjum landsins með miklum skell, og 1500 missa vinnuna á einu bretti og gríðarleg óvissa er um atvinnuöryggi þúsunda einstaklinga í ferðaþjónustunni og annars staðar, og afleiddum fyrirtækjum. Þetta er svakalegur skellur að fá í fangið í miðjum kjaraviðræðunum.“

Hangir á tveimur risastórum málum

Spurður hvort jöfnuður muni aukast áberandi mikið í kjölfar samninganna játaði Ragnar Þór því. „Ég myndi segja það,“ sagði hann þó hann sagði erfitt að segja að það væri stökk. Ragnar Þór segir að þó erfitt sé að gera alla sátta sé eitthvað í samningunum fyrir alla.

Loks var hann spurður hvort ríkið þyrfti að samþykkja allt eða ekkert, eða hvort ríkið gæti komið til móts við þá í minni áföngum. „Það er búið að tikka í mjög mörg box, en þetta hengur á tveimur risastórum málum, sem þurfa að liggja fyrir eigi þessi samningur að verða að veruleika.“