Samdráttur á landsframleiðslu Íslands gæti orðið allt að 3% ef íslenska flugfélagið Wow air færi í gjaldþrot samkvæmt sviðsmyndagreiningu stjórnvalda. Það gæti jafnframt þýtt að gengi krónunnar myndi veikjast um allt að 13% næsta árið á eftir að því er Fréttablaðið greinir frá.

Hagstofan og Seðlabanki Íslands hafa þvert á móti spáð 2,7% hagvexti á næsta ári, og jafnframt er gert ráð fyrir að gengi krónunnar haldist stöðugt. Sviðsmyndagreiningin var unnin af starfshópi skipuðum af fulltrúum frá fjármála- og forsætisráðuneytum auk Seðlabanka Íslands.

Töluverður samhljómur er með þessum tölum og greiningar Viðskiptablaðsins frá því í mars síðastliðnum en þar er bent á að fall annars íslenska flugfélagsins gæti þýtt 10-20% fækkun ferðamanna. Það gæti kostað ríkissjóð 9 til 18 milljarða króna.

Mögulegt fall Wow air gæti samkvæmt fréttum af sviðsmyndagreininni nú leitt til 10% samdráttar á útflutningi, að verðbólga myndi hækka um 3 prósentustig upp í um 6%, og 1.400 manns myndu missa vinnuna. Í lok ágústmánaðar voru 4.500 manns á atvinnuleysiskrá.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hélt Wow air skuldabréfaútboð í síðasta mánuði sem tryggði félaginu um 60 milljónum evra, eða sem jafngildir 7,9 milljörðum króna. Síðan þá hefur heimsmarkaðsverð Brent-hráolíu hækkað um 18% frá því að skuldabréfaútboðið hófst.