Í fréttatilkynningum stjórnarandstöðuflokkanna í gær í kjölfar samstarfsfunda þeirra í aðdraganda kosninga þar sem flokkarnir hafa rætt um samstarfsgrundvöll flokkanna að afloknum kosningum kemur fram að ekki hefur verið sátt um kröfu Pírata um stutt kjörtímabil.

Flokkarnir gáfu út sameiginlega yfirlýsingu um samstarfið í gær, eins og Viðskiptablaðið greindi frá .

Björt framtíð hafnar kröfunum í fréttatilkynningu sinni, líkt og hinir flokkarnir í viðræðunum eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá , og Píratar gefa eftir kröfuna sem eins og Viðskiptablaðið greindi frá þeir sögðu ófrávíkandi fyrir nokkrum dögum.

Píratar gera málamiðlun

„Píratar eru tilbúnir til að gera málamiðlun um lengd kjörtímabilsins. Rökin eru þau, að þær víðtæku kerfisbreytingar sem gerð er krafa um gætu tekið lengri tíma en svo að styttra kjörtímabil væri raunhæft,“ segir í tilkynningu á heimasíðu Pírata.

Björt framtíð segir að sátt sé á milli flokkanna um heilbrigðis- og menntamál, ferðaþjónustuna og loftlagsmál.

Minni sátt um sjávarútvegs, landbúnaðar, stjórnarskrár og loftlagsmál

„Önnur mál er minni sátt um. Má þar nefna breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, alvöru kerfisbreytingar í landbúnaði, nýja stjórnarskrá og að Íslendingar verði leiðandi í loftslagsmálum,“ segir í fréttatilkynningu flokksins.

„Björt framtíð mun ekki gefa afslátt af grunnprinsippum sínum á þessu sviði og sér enga ástæðu til að stefna að stuttu kjörtímabili.“