Karlmaður var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir að falsa hlutafjárhækkun í einkahlutafélagi þar sem hann var framkvæmdastjóri og prókúruhafi.

Maðurinn lagði inn á reikning félagsins 2,5 milljónir og dró upphæðina samstundis út af reikningnum. Sama dag var þessi ráðstöfum endurtekin tvisvar í viðbót en með þessum hætti leit út fyrir að hlutafé hefði verið aukið um 7,5 milljónir án þess að hækkunin hafi í raun legið fyrir á reikningi félagsins. Maðurinn sýndi svo bankainnlegg fyrir 7,5 milljónum króna sem hann sagði að hefði verið lagt inn á reikning félagsins.

Tilgangur ákærða með háttseminni var að greiða fyrir frekari fyrirgreiðslu til félagsins vegna húsnæðiskaupa í atvinnuskyni. Enginn rekstur var í félaginu og félagið skilaði ekki ársreikningi fyrir árin 2007, 2008, 2010, 2011 og 2012 þegar fé­lagið var loks tekið til gjaldþrota­skipta.

Ákærði játaði fyrir dómi og var dæmdur til 4 mánaða í fangelsi sem er skilorðsbundin til tveggja ára.