Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður og annar skiptastjóra þrotabús WOW air, spurði hvort engin takmörk væru fyrir því hvers konar þvæla væri lögð fyrir dómstóla. Málflutningur fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag vegna kröfu Arion banka um að Sveinn Andri verði settur af sem skiptastjóri.

Krafa Arion byggir á því að Sveinn Andri hafi beitt sér með óeðlilegum hætti í störfum sínum sem lögmaður Sunshine Press og Datacell gegn Valitor. Félögin tvö krefja Valitor um sextán milljarða í skaðabætur eftir að fyrirtækið lokaði fyrir greiðslur til stuðnings WikiLeaks. Hefur Sveinn Andri meðal annars farið fram á þrotaskipti Valitor og kyrrsetningu eigna þess. Arion er stór hluthafi í Valitor.

Ólafur Eiríksson, lögmaður Arion banka, sagði að Sveinn hefði farið langt út fyrir eðlileg mörk í störfum sínum. Meðal annars með því að senda bréf til kauphalla á Íslandi og í Svíþjóð, sem og Fjármálaeftirlitsins, við skráningu bankans á markað. Þar hefði hann komið fram í eigin nafni.

„Í alvöru, er lögmaðurinn ekki alveg vel læs?“ er haft eftir Sveini á mbl.is . Bréfin hefði hann sent fyrir hönd umbjóðenda sinna. Ýjaði hann að því að Ólafur lifði í hliðarveruleika þar sem svart væri hvítt og hvítt væri svart og hlaut fyrir vikið aðfinnslur frá Símoni Sigvaldasyni, dómara málsins og dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur.

Sveinn sagði að engar aðstæður væru uppi sem gætu stuðlað að vanhæfi hans til starfans. Mögulega gæti það verið varðandi einstakar kröfur en þær myndi hinn skiptastjóri búsins, Þorsteinn Einarsson, sjá um og öfugt.

Úrskurðar er að vænta á föstudag klukkan tvö.