Aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, Fanney Birna Jónsdóttir, hefur nú sagt upp störfum hjá 365 miðlum. Hefur hún gengt stöðunni í tæpt ár, en hún tók við henni í ágúst 2015.

Í kjölfar mótmæla starfsmanna

Í morgun bárust fréttir um að starfsmenn Fréttablaðsins og Vísis hefðu mótmælt harðlega uppsögn Pjeturs Sigurðsonar yfirmanns ljósmyndadeildar 365, eftir að hafa verið í tímabundnu leyfi í allt sumar í kjölfar kvörtunar hans undan einelti aðalritstjóra, Kristínar Þorsteinsdóttur.

Fanney Birna vildi ekkert tjá sig um málið þegar Viðskiptablaðið hafði samband við hana í dag.

Í yfirlýsingu starfsmanna fjölmiðlanna er uppsögnin sögð óverðskulduð. „Jafnframt eru hörmuð óásættanleg vinnubrögð aðalritstjóra og yfirstjórnar fyrirtækisins í aðdraganda uppsagnar Pjeturs og við kynningu á henni til samstarfsmanna hans,“ segir í yfirlýsingunni .