Vatnsátöppunarfyrirtæki Jóns Ólafssonar í Ölfusi, Icelandic Water Holding, hefur fengið á sig skaða- og miskabótakröfu að andvirði 1,3 milljarðar króna frá einkahlutafélaginu iGwater.

Ástæðan er lögbann sem sem fyrirtæki Jóns fékk á notkun iGwater á vörumerkinu Iceland Glacier, enda hefur Icelandic Water Holding lengi selt vatn undir vörumerkinu Icelandic Glacial.

Stjórnendur iGwater segja lögbannið hafi spillt fyrir fyrirtækinu og að IWH hafi fylgt því eftir með því að hafa samband við verslanir sem seldu vörur fyrirtækisins.

Þótti vörumerkin of lík

Haft er eftir Jóni Ólafssyni í desember 2013 að honum þætti vörumerkin of lík en lögbannið stóð þangað til í október 2014 að því er Vísir greinir frá.

Hæstiréttur komst svo að þeirri niðurstöðu að iGwater mætti nota Iceland Glacier til markaðssetningar, þó því væri ekki heimilt að nota það í firmaheiti sínu, en þá hét félagið Iceland Glacier Wonders.

Fyrirtækið rekur verksmiðju til átöppunar á vatni í Vestmannaeyjum undir vörumerkinu Sno Iceland Glacier Water. Framkvæmdastjóri iGwater heitir Natalie Anne Stotter, en hún er dóttir Otto Spork, fjárfestis frá Hollandi, sem rak um tíma félagið Iceland Glacier Products ehf.