*

föstudagur, 22. júní 2018
Erlent 18. mars 2017 16:02

Fara Skotar sína leið úr ESB í EFTA?

Á einni nóttu hætti Nicola Sturgeon að tala um aðild að Evrópusambandinu og fór að ræða EFTA-aðild.

Andrés Magnússon
Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins.
epa

Undanfarna mánuði hafa Bretar ekki hugsað um mikið annað á pólitíska sviðinu en Brexit, fyrirhugaða úrgöngu þeirra úr Evrópusambandinu (ESB). Hart hefur verið um hana deilt, ekki síst vegna þess að afstaða einstakra landsvæða var nokkuð mismunandi í því tilliti. Lundúnabúar voru þannig mjög áfram um ESB-aðild, en aðrir Englendingar síður. Og Skotar voru eindregið hlynntir áframhaldandi aðild að ESB í atkvæðagreiðslunni á liðnu ári.

Þessa stöðu vildi Skoski þjóðarflokkurinn (SNP) gjarnan notfæra sér til þess að koma sjálfstæðismálinu aftur á dagskrá, en þeir töpuðu atkvæðagreiðslu um það fyrir tæpum þremur árum. Brexit þótti þeim skiljanlega hafa í för með sér verulega breytta hagi í ríkjasambandinu, og því mætti reyna að knýja fram nýja sjálfstæðiskosningu.

Nicola Sturgeon, leiðtogi SNP tók sér góðan tíma til þess arna, enda ljóst að við ramman væri reip að draga. Þó svo að Theresa May hefði sjálf verið hlynnt áframhaldandi ESB-aðild dylst engum að hún vinnur að úrsögninni af fullum heilindum og fátt annað kemst að hjá henni. Meðan May einbeitti sér að því og annað bjátaði ekki á var óhægt um vik fyrir Sturgeon og því ástundaði hún hina gömlu og góðu iðju góðra stjórnmálamanna, að bíða þar til færi gæfist. Hún mátti bíða býsna lengi, því þrátt fyrir ýmsa veikleika stjórnarinnar er staða May enn sterk.

Hveitibrauðsdagar

Theresa May hefur átt óvenjulanga hveitibrauðsdaga í Downingstræti 10 síðan hún tók við af David Cameron eftir Brexit-kosningarnar liðið sumar. Flestir forsætisráðherrar teljast heppnir ef þeir fá sæmilegan frið í 100 daga eftir embættistöku. Nú eru 246 dagar síðan hún tók við völdum og fátt sem bendir til þess að gamanið sé að kárna.

Að sumu leyti er það heppni. Theresa May býr þannig við þann munað að stjórnarandstaðan er óvirk. Verkamannaflokkurinn á við mögnuð innanmein að etja en Jeremy Corbyn, formaður hans, nýtur einskis trausts í þingliði sínu, flokkurinn er klofinn og almenningur hefur glatað allri tilrú á honum. Og þrátt fyrir að Frjálslyndir demókratar hafi bætt hlut sinn í sveitarstjórnarkosningum eru þeir varla með í þinginu, með 9 þingmenn af 650. Og því getur May nokkuð farið sínu fram.

Það segir kannski sína sögu að það var á liðnum tveimur vikum, sem hún lenti fyrst i einhverjum vandræðum. Annars vegar í lávarðadeildinni, sem vildi gera athugasemdir við það með hvaða hætti úrgangan úr ESB færi fram, og hins vegar í neðri deildinni, sem lagðist öndverð gegn ákvæðum um tryggingagjald einyrkja í fyrsta fjárlagafrumvarpi Philips Hammond fjármálaráðherra.

May hafði sitt fram gagnvart lávarðadeildinni, en í neðri deildinni þurfti hún að snúa við blaðinu og niðurlægja fjármálaráðherrann, nánasta bandamann sinn. Þetta skiptir samt engu. Punkturinn er sá að í báðum tilvikum voru það samherjar hennar sem þvældust fyrir henni. Stjórnarandstaðan hefur engan mátt til þess. Og þegar á reynir mun May ná sínu fram.

Heppnin er ekki aðeins á pólitíska sviðinu, því breskt efnahagslíf hefur verið mun blómlegra en gerist á meginlandinu um nokkurra ára skeið. Meiru skiptir þó að hrakspár um hvernig Brexit myndi valda samdrætti, efnahagsáföllum og stórfelldum skattahækkunum, hafa reynst úr lausu lofti gripnar. Þvert á móti hefur breskt efnahagsog atvinnulíf vænkast frá því að Bretar völdu að ganga úr Evrópusambandinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: ESB Skotland EFTA Nicola Sturgeon