Hið dularfulla rafbílafyrirtæki Faraday Future hefur nú sótt um að fá að kaupa lóð í Kaliforníuríki. Sveitarstjórn mun kjósa um hvort leyfa eigi fyrirtækinu að taka við lóðinni í næstu viku. Þetta kemur fram í frétt Los Angeles Times.

Í síðasta mánuði keypti félagið 127 ekru landsvæði í Nevada fyrir milljarð Bandaríkjadala eða 120 milljarða króna undir verksmiðju. Þá gætu verksmiðjur fyrirtækisins, sem er í eigu kínversks félags, verið tvær talsins.

Faraday Future kynnti sinn fyrsta bíl, FFZERO, á CES-sýningunni í Las Vegas fyrr á árinu, en fyrirtækið hyggst fara í samkeppni við Tesla Motors. Rafbílamarkaðurinn fer sífellt vaxandi er æ fleiri framleiðendur telja að eftirspurn fyrir rafbílum næstu áratugina muni aukast talsvert.

„Faraday Future hefur mikla trú á vaxandi eftirspurn fyrir rafbílum,” sagði fyrirtækið í tilkynningu. „Okkar sýn á framtíðina er sú að byggja aðra verksmiðju til að halda í við framleiðsluáætlanir okkar fyrir framtíðina.”