Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og annar tveggja fulltrúa minnihlutans í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur segir ákvörðun meirihlutans um að greiða út arð byggt á áætlunum fyrir yfirstandandi ár vera óeðlilega.

„Hingað til hef ég haldið að það væri skilningur allra að miða ætti við ársreikninginn,“ segir Kjartan en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um tók hann þátt í samþykkt bókunar um málið í tilefni Aðalfundarins sem haldin er í dag.

„Arður er iðulega greiddur út vegna nýliðins árs enda er Aðalfundurinn haldinn af því tilefni að þar er lagður fram ársreikningur fyrir það ár.“

Skilyrði sem settu sjálfum sér brotin

Ástæðan fyrir því að ekki ætti að greiða út arð fyrir nýliðið ár er sú að mati Kjartans að þó að planinu sé lokið, hafi félagið ekki uppfyllt þau skilyrði sem það hafi sett sjálfu sér fyrir því að greiða út arð.

„Þegar farið var að síga á seinni hluta plansins, sáu menn fram á að einhvern tíman í framtíðinni gæti Orkuveitan farið að borga út arð að nýju og þá voru ákveðin þau skilyrði sem yrðu að vera fyrir hendi til að hægt væri að fara út í arðgreiðslur og var veltufjárhlutfall upp á 1,0 eitt þeirra,“ segir Kjartan.

„31. desember var veltufjárhlutfallið 0,8, en áætlanir benda til að það geti farið yfir skilyrtu mörkin á árinu, til dæmis samkvæmt hálfs árs uppgjörinu, en þá er hugmyndin að greiða út arð um leið og það er komið.“

Þrýstingur frá borgarstjóra vegna bágrar fjárhagsstöðu

Kjartan telur að þarna liggi að baki þrýstingur frá borgarstjóra og meirihlutanum í Reykjavík til að sækja þarna peninga til að láta bókhaldið líta betur út.

„Borgarstjóri sér þarna tækifæri til að laga bága fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar og þá ákveða menn bara að víkja frá þessum skilyrðum,“ segir Kjartan.

„Þetta eru skilyrði sem menn hafa sett sjálfum sér, en það má auðvitað ræða það hvort þau séu of ströng eða hvort eðlilegra væri að endurskoða skilyrðin eða breyta þeim. Stóra málið er að þarna er verið að fara á svig við reglurnar með þessum hætti.“