*

þriðjudagur, 11. desember 2018
Innlent 8. október 2018 17:17

Farþegum Icelandair fjölgaði um 1%

Í september fjölgaði farþegum Icelandair á sama tíma og framboð jókst milli ára, en ekki nóg til að bæta versnandi sætanýtingu.

Ritstjórn
Boeing 757-3E7 vél Icelandair var máluð í fánalitunum í tilefni 100 ára afmælis fullveldis landsins.
Haraldur Guðjónsson

Í septembermánuði voru farþegar Icelandair 427 þúsund talsins sem er 1% aukning frá sama tíma árið áður. Framboðnir sætiskílómetrar jukust hins vegar um 3% á milli ára samkvæmt fréttatilkynningu félagsins.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í dag þá fjölgaði farþegum Wow á sama tíma um 27%, þó heildarfjöldinn væri nokkuð lægri, eða 362 þúsund í septembermánuði. Í tilkynningu Icelandair kemur fram að sala til áfangastaða í Norður Ameríku hafi ekki fylgt auknu framboði, en salan til Evrópu hafi hins vegar verið mjög góð.

Þannig hafi sætanýting á leiðum til Evrópu aukist um 5,4 prósentustig á milli ára og nam hún 84,9%, meðan hún lækkaði á leiðum til Norður Ameríku um 3,4% niður í 78,7%.

Fækkun um 15% hjá gamla Flugfélagi Íslands undir nýju nafni

Farþegar Air Iceland Connect, sem sinnir að mestu innanlandsflugi og hét áður Flugfélag Íslands, voru tæplega 29 þúsund og fækkaði um 15% á milli ára. Um miðjan maí í ár hætti félagið flugi til Belfast og Aberdeen og einnig á milli Keflavíkur og Akureyrar og skýrir það fækkunina milli ára. Sætanýting nam 70,5% og jókst um 0,2 prósentustig á milli ára.

Fjöldi seldra blokktíma í leiguflugi jókst um 18% á milli ára.  Fraktflutningar jukust um 9% á milli ára. Framboðnum gistinóttum hjá hótelum félagsins fjölgaði um 20% á milli ára. Herbergjanýting var 93,7% samanborið við 90,9% í september 2017.  Herbergjanýtingin hækkaði á milli ára á öllum hótelum félagsins