WOW air flutti 409 þúsund farþega til og frá landinu í júlí eða um 29% fleiri farþega en í júlí árið 2017. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun fækkaði á sama tíma farþegum Icelandair, þó þeir séu ríflega 100 þúsund fleiri.

Þá var sætanýting WOW air 92% í júlí í ár en var 90% í fyrra. Sætanýtingin jókst þrátt fyrir 32% aukningu á framboðnum sætiskílómetrum miðað við sama tímabil í fyrra. Loks hefur hlutfall tengifarþega aukist en í ár var hlutfallið 59% í júlí miðað við 44% á sama tíma í fyrra. Það sem af er ári þá hefur WOW air flutt um tvær milljónir farþega.

WOW air flýgur nú til hátt í fjörutíu áfangastaða í Evrópu, Asíu og Norður Ameríku. Nýlega var tilkynnt um heilsársflug til Mílanó með bættum flugtímum en hingað til hefur aðeins verið flogið til Mílanó á sumrin. Þá hefst áætlunarflug til Indlands í desember á þessu ári.