Farþegar á leiðinni til Bandaríkjanna frá 10 ríkjum þar sem múslimar eru í meirihluta mega nú taka fartölvur og önnur stærri raftæki með sér í flug. Ráðuneyti heimavarna í Bandaríkjunum staðfesti í dag að fartölvubanni sem sett var á vegna mögulegrar hryðjuverkaógnar hafi verið aflétt. New York Times greinir frá

Bannið var sett á í mars síðastliðnum eftir að grunur lék á um að hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki hefðu í hyggju að fremja hryðjuverk með því að fela sprengibúnað inn í raftækjum. Þau flugfélög og flugvellir sem bannið hafði áhrif á hafa nú öll uppfyllt öryggisstaðla ráðuneytisins og því hefur banninu verið aflétt.

Bannið hafði töluverð áhrif á flugfélög þar sem margir flugfarþegar vilja nota tölvur eða spjaldtölvur á meðan flugi stendur til afþreyingar eða til að sinna vinnu. Óttuðust greiningaraðilar að banni myndi verða þess valdandi að farþegum frá þeim löndum sem bannið náði til myndi fækka töluvert í Bandaríkjunum. Bannið náði til landa í Norður-Afríku, Mið-Austurlöndum auk Tyrklands.