Magnús Scheving kom eins og stormsveipur á sjónarsviðið á Íslandi á tíunda áratugnum. Magnús var brautryðjandi í þolfimi hérlendis, hreppti Íslandsmeistaratitilinn í greininni án mikillar samkeppni og gerði sér síðan lítið fyrir og varð Norðurlandameistari, Evrópumeistari og náði öðru sæti á heimsmeistaramóti í Japan. Mörgum að óvörum var hann kosinn Íþróttamaður ársins árið 1994, þar sem óhefðbundnari íþróttir höfðu til þessa notið takmarkaðs skilnings íþróttaafréttamanna. En þessi árangur varð þó aðeins stökkpallur fyrir Magnús til frekari afreka og er óhætt að segja að hann hafi haft þúsund járn í eldinum síðan þjóðin sá hann fyrst gera þolfimiæfingar í þröngum spandex-galla. Sigurganga Latabæjar á sínum tíma rís þar auðvitað hæst.

Árið 2002 framleiddu Magnús og hans samstarfsfólk kynningarþátt (pilot) af Latabæ og héldu vestur um haf með hann til Nickelodeon, bandarísku kapal- og gervihnattasjónvarpsstöðvarinnar sem sérhæfir sig í barnaefni. „Við höfðum aldrei gert sjónvarpsþátt áður og á þeim tíma var engin reynsla á Íslandi í gerð leikinna sjónvarpsþáttaraða af þessari stærðargráðu,“ segir Magnús. „Mig minnir að Fornbókabúðin hafi verið það viðamesta sem framleitt hafði verið á þeim tíma, líklega sextán þættir, og þær íslensku sjónvarpsþáttaraðir sem voru þó til höfðu aldrei verið seldar út fyrir landsteinana. Spaugstofan var auðvitað til en hún var frábrugðin því efni sem ég er að tala um. Þetta var ókannað land fyrir okkur Íslendinga. Við Baltasar Kormákur fórum aftur í samstarf um framleiðslu á kynningarþættinum og síðan var haldið í víking til Bandaríkjanna. Við í Latabæ vorum búin að bíða hrikalega lengi eftir þessum fundi með Nickelodeon og vorum gríðarvel undirbúin eftir allt sem á undan var gengið. En morguninn sem ég átti að fljúga út syrti í álinn. Ég hafði þá nýlega farið í hálskirtlatöku og ekki beinlínis verið að hlífa mér eftir það, og þegar ég vaknaði eldsnemma var blóð út um allt. Ég ók beint á slysadeild en þá var enginn læknir sem gat sinnt þessu fyrr en um hádegi, og flugið var um klukkan fimm.

Ég var að fara á mikilvægasta fund ævi minnar og raunar verið allt lífið að undirbúa mig fyrir þennan dag, þannig að þetta leit illa út. Læknirinn kom loks og bræddi sárið saman, en bætti við að það væri svo mikið blóð búið að safnast upp í maganum að ég mætti alls ekki fljúga! Sá valkostur var ekki til staðar í mínum huga svo ég fór nú í flugið og vélin var varla komin á loft þegar ég hrundi í gólfið. Það var kallað á lækni um borð og þó að ég muni nær ekkert eftir þessu flugi skilst mér að hann hafi stumrað yfir mér þangað til New York kom. Þar beið sjúkrabíll og átti að flytja mig beint á spítala. Ég neitaði að fara í sjúkrabílinn því að það var útilokað í mínum huga að mæta þannig til landsins til að selja Íþróttaálfinn og allt það sem hann stóð fyrir, hollustu og hreysti. Ég harðneitaði, bað samstarfélaga mína að halda á mér í gegnum flugstöðina og inn á hótel; á sjúkrahús færi ég aldrei og sérstaklega ekki ef ég þyrfti kannski að vera nokkra daga þar og missa af fundinum sem átti að vera klukkan níu næsta morgun.

Ég komst á hótelið án þess að missa meðvitund, lá fárveikur þar alla nóttina og þurfti að skipta þrívegis á rúminu því að það blæddi svo mikið. Næsta morgun skellti ég mér bara í sturtu, klæddi mig í jakkafötin og dreif mig á fundinn hjá Nickelodeon. Hann stóð yfir í tvo tíma og ég og hópurinn seldum Latabæ með frábærri kynningu. Auðvitað var ætlast til að ég myndi hoppa og sprikla eins og alvöru álfur, og ég beit á jaxlinn og gerði armbeygjur á annarri hendi, gekk á höndum um alla skrifstofuna og stökk svo aftur á bak heljarstökk af skrifborðum með tilheyrandi látbragði. Þetta féll mjög vel í kramið hjá Bandaríkjamönnunum.

Í fundarlok sagði ég að ef þeir væru í vafa að Latibær fengi börn til að hreyfa sig, skyldi ég troða upp í hvaða barnaskóla sem væri í borginni og heilla krakkana upp úr skónum. Ég fór síðan aftur upp á hótelherbergi, glaður með fundinn en auðvitað alveg gjörsamlega búinn á því og svaf fram á næsta dag. Þeir hringdu skömmu síðar. Ég átti ekkert von á að þeir tækju mig á orðinu, en ekki aðeins gerðu þeir það heldur fengu þeir að hlaupa inn í skóla þarna án nokkurs fyrirvara, sem er ekki algengt þar í landi. Ég varð því að gjöra svo vel að brölta á fætur og fara til þessa skóla í Queens, þar sem ég hoppaði og skemmti í búningnum í fjóra tíma og krakkarnir alveg dolfallnir. Fulltrúar sjónvarpsstöðvarinnar mættu og eftir það samþykktu þeir kaupin.“

Nánar er rætt við Magnús Scheving í 25 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði hér eða pantað tímaritið .