Fasteignareigendum á Íslandi fækkar en þeim sem vilja kaupa fjölgar, en árið 2011 töldu 55,4% aðspurðra að óhagstætt væri að vera á leigumarkaði. Hlutfallið nú er 92,7%.

Ný könnun Íbúðalánasjóðs sýnir að fasteignareigendum á Íslandi fækkar hratt. Ríflega 10% færri búa í eigin íbúð í dag heldur en í desember 2008 þegar 77,6% svarenda sögðust búa í eigin húsnæði. Í október árið 2013 var hlutfallið 73,2% en nú árið 2017 eru það aðeins 70,1% sem segjast eiga húsnæðið sem þeir búa í.

Þessi þróun þar sem fasteignareigendum fækkar virðist vera í ósamræmi við vilja þorra fólks á húsnæðismarkaði. Hlutfall þeirra sem segjast telja óhagstætt að vera á leigumarkaði hefur farið úr 55,4% árið 2011 í 92,7% nú. Um 15% Íslendinga segjast hugleiða að kaupa fasteign á næstu 12 mánuðum.

Kaupmáttaraukning og sparnaður hefur ekki við

Hlutfall þeirra sem segjast vera í kauphugleiðingum breytist lítið þegar litið er til eigna- eða skuldastöðu. Fólk virðist leggja áherslu á að komast inn á fasteignamarkaðinn þrátt fyrir verðhækkanir. Vandséð er hvernig stór hluti þessa hóps muni geta keypt, segir í fréttatilkynningu Íbúðarlánasjóðs um málið.

Mikil kaupmáttaraukning og meiri sparnaður íslenskra heimila dugir ekki til þegar fólk vill eignast íbúð, þar sem methækkun þessara tveggja mælikvarða á velmegun fólks er þó sýnu minni en hækkun fasteignarverðs.

Erfitt að spá vegna upplýsingaskorts

Una Jónsdóttir, hagfræðingur í hagdeild Íbúðalánasjóðs segir að upplýsingar um ákveðna þætti húsnæðismarkaðarins hafa verið af skornum skammti. „Sér í lagi hvað varðar gögn sem nota megi til að spá fyrir um eftirspurnarþróun,“ segir Una.

„Einnig er hlutfall þinglýstra leigusamninga fremur lágt svo erfitt hefur verið að fylgjast með framboði, eftirspurn og verðþróun á leigumarkaði. Við ákváðum því að byrja að gera reglulegar kannanir á vegum Íbúðalánasjóðs þar sem stoppað er í þessi upplýsingagöt á markaðnum.

Þær upplýsingar sem birtast okkur í fyrstu könnunni eru mjög athyglisverðar og sýna óvænta hluti um viðhorf og stöðu fólks á húsnæðismarkaði.“