Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,52% í 2,2 milljarða króna viðskiptum dagsins. Stendur hún í 1.721,00 stigum. Aðalvísitala Skuldabréfa lækkaði um 0,05% í tæplega 1,4 milljarða viðskiptum og var lokagengi hennar 1.341,15 stig.

Einungis tvö félög hækkuðu í virði í viðskiptum dagsins, það er Icelandair Group sem hækkaði um 0,32% upp í 15,80 krónur hvert bréf í 278 milljón króna viðskiptum. Marel hækkaði svo um 0,14% í 416 milljón króna viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins á 350,00 krónur.

Reitir, Eik og Reginn ásamt N1 lækkuðu mest

Mest lækkun var á gengi bréfa Reita fasteignafélags, eða um 2,14% í 417 milljón króna viðskiptum, og er gengið nú 86,90 krónur. Næst mest lækkaði Eik fasteignafélag eða um 2,10% í 356 milljón króna viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins á 10,71 krónu.

Næst á eftir því lækkuðu svo hvort tveggja N1 sem og þriðja fasteignafélagið um jafnmikið eða 1,65%. Viðskiptin með bréf Regins námu 198 milljónum króna og fæst nú hvert bréf félagsins á 25,35 krónur. Gengi bréfa N1 fór niður í 119 krónur hvert bréf, en viðskiptin námu 120 milljónum króna.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,5% í dag í 2,2 milljarða viðskiptum.

Skuldabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,1% í dag í 1,3 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði lítillega í litlum viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði um 0,2% í 1,3 milljarða viðskiptum.