Hæstiréttur felldi í dag úr gildi úrskurð yfirfasteignamatsnefndar um fasteignamat Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss frá árinu 2012. Yfirfasteignamatsnefnd hafði staðfest ákvörðun Þjóðskrár um fasteignamatið, en það hljóðaði upp á rétt rúma sautján milljarða króna. Fasteignagjöld taka mið af fasteignamati.

Harpa hélt því fram fyrir dómi að ekki ætti að miða við byggingarkostnað við vinnslu fasteignamats, heldur ætti að beita svonefndri tekjumatsaðferð við útreikning á fasteignamatinu, þar sem lagt væri mat á tekjur sem hafa mætti af eigninni.

Í dómi Hæstaréttar kemur m.a. fram að kostnaður við byggingu Hörpu hafi numið samtals 28.639.053.335 krónum árið 2011, en að samkvæmt matsgerð, sem Harpa aflaði, hafi verið talið að líklegt söluverð hússins væri um 10 milljarðar króna árið 2014. Talið var að þótt mati hinna dómkvöddu manna yrði ekki jafnað til ákvörðunar um fasteignamat hefði matsgerð þeirra engu að síður sönnunargildi um það hvert gæti hafa verið sennilegt gangverð tónlistar- og ráðstefnuhússins á markaði árið 2011.

Segir í dómi Hæstaréttar að ekki yrði framhjá því litið að tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa væri að stærstum hluta leigt út, auk þess sem gengið væri út frá því af hálfu eigenda þess að tekjur af leigu og aðstöðu í húsinu ætti að standa undir rekstrarkostnaði þess. Að þessu leyti mætti líkja nýtingu hússins við skrifstofu- og verslunarhúsnæði, en fasteignamat af þeim eignum hefði í æ ríkara mæli verið ákveðið af Þjóðskrá með svonefndri tekjuaðferð. Var því fallist á með Hörpu ohf. að með tekjuaðferðinni fengist gleggri mynd af líklegu gangverði tónlistar- og ráðstefnuhússins á markaði en með kostnaðaraðferð.