*

miðvikudagur, 24. apríl 2019
Innlent 1. júní 2018 12:55

Fasteignamatið allt að tvöfaldaðist

Fasteignamat hækkar að meðaltali um 12,8% fyrir landið allt, langmest á svæðum í kringum höfuðborgina og næsta nágrenni.

Ritstjórn
Mest hækkun fasteignamats á einu svæði var á Ásbrú, en þar nam hún 98% á síðasta ári.
Aðsend mynd

Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 12,8% frá yfirstandandi ári og verður 8.364 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2019 sem Þjóðskrá Íslands birti í dag.

Fasteignamatið hækkar á 99,2% eigna en lækkar á 0,8% eigna frá fyrra ári. Heildarfjöldi íbúða eru 133.071 á öllu landinu og er heildarmat þeirra 5.727 milljarðar króna.

Öfug þróun í borginni og landsbyggðinni

Á höfuðborgarsvæðinu hækkar matsverð íbúða í sérbýli meira en íbúðir í fjölbýli en á landsbyggðinni er þessu öfugt farið.
Nam heildarhækkunin 11,6% á höfuðborgarsvæðinu, en meðalhækkun á mati íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu er 10,3% og hækka flest svæði innan þess um 8-12%.

Mun meiri hækkun má sjá í nágrannasveitarfélögum, þannig hækkar matssvæðið á Ásbrú um 98%, Sandgerði um 39%, Garður um 37%, Reykjanes dreifbýli um 35%, Hafnir um 35%, Keflavík og Njarðvík um 34%, Vogar um 33%, Hveragerði um 24% og Akranes og Selfoss um 22%.

Mest hækkun á Reykjanesi

Fasteignamat hækkar mest á Reykjanesi en þar hækkar íbúðamatið um 41,1% í Reykjanesbæ, um 37,9% í sameinuðu sveitarfélagi Sandgerðis og Garðs og um 32,9% í Vogum.

Heildarhækkunin á Suðurnesjum hækkaði um 28,3%, um 14,3% á Vesturlandi, 12,1% á Vestfjörðum, 11% á Norðurlandi vestra, 15% á Norðurlandi eystra, 9,5% á Austurlandi og um 13,7% á Suðurlandi.

Atvinnuhúsnæði hækkar mikið í borginni

Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 15% á landinu öllu; um 17,2% á höfuðborgarsvæðinu en um 9,9% á landsbyggðinni.
Fasteignamat sumarhúsa fyrir árið 2019 hækkar um 9,8% og byggir það mat á sömu aðferðarfræði og fasteignamatið fyrir árið 2018 gerði, en ýmsum nýjum upplýsingum hefur verið bætt inn í það mat.

Fasteignamatið byggir á upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum auk fjölmargra annarra þátta sem hafa áhrif á verðmæti fasteigna. Nýja fasteignamatið miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2018. Það tekur gildi 31. desember 2018 og gildir fyrir árið 2019.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim