Reglum um fasteignakaup var breytt fyrir nokkrum vikum á Kúbu. Allt frá því Kastró tók völdin á Kúbu árið 1959 hefur verið refsivert að starfa þar sem fasteignasali.

Í nóvember árið 2011 var banni við sölu á fasteignum aflétt sem einnig var sett á árið 1959. Bannið var ekki algjört því mögulegt var að fá undanþágu frá því. Það gat engu að síðu þýtt margra mánaða bið, pappírsvinnu, heimsóknir á skrifstofur hins opinbera með tilheyrandi hættu á spillingu - jafnvel tilheyrandi fjárútlátum í mútugreiðslur. Þeir sem fluttu frá Kúbu þurftu að þola að eignir þeirra voru teknar af hinu opinbera, án bóta.

Nú mega íbúar landsins selja fasteignir án sérstaks leyfis frá yfirvöldum. Á sama tíma var bílasala leyfð.

Aðrar reglur gilda um útlendinga

Breska dagblaðið Financial Times fjallaði í sumar um breytingarnar á fasteignamarkaðnum á Kúbu. Þrátt talsverðar afléttingu hafta er fasteignamarkaður á Kúbu ekki frjáls.

Útlendingar mega aðeins kaupa eignir sem í húsum sem sérstaklega voru byggðar fyrir útlendinga upp úr 1990. Það eru dýrustu eignirnar í landinu.

Þeim útlendingum sem flytjast til Kúbu er heimilt að kaupa ef þeir fjárfesta í atvinnurekstri um leið. Einnig má sá útlendingur sem á kúbverskan maka kaupa þar fasteign.

Samkvæmt Hagstofu Kúbu voru 45.000 fasteignir seldar árið 2012. Financial Times segir óformlega samninga hækka töluna upp í um 100 þúsund. Bæði eru það samningar þar sem er verið að komast hjá eignarhaldsreglum og eins sérstökum 4% skatti sem leggst á kaupsamninginn, ekki ólíkt stimpilgjaldi hér á landi.

Íbúðaverðið mjög misjafnt

Meðalverð kaupsaminga árið 2012 voru 16 þúsund Bandaríkjadalir, eða tæpar 2 milljónir króna.

Íbúðir kosta frá 10 þúsund dölum (1,2 milljón ísl. kr.) í elsta hluta Havana. Einbýlishús kosta í kringum 500 þúsund dali (60 milljónir ísl. kr.) í dýrari hverfum eins og Siboney og Miramar.

Dýrastar eru nýlegar blokkaíbúðir sem aðallega hafa verið byggðar fyrir útlendinga. Þær kosta um 2 milljónir dala eða 240 milljónir króna.